Oj. Eina sem ég get sagt um þetta veður er oj.
Nálgast hádegi og ég er enn í náttkjólnum og sloppnum og held bara að ég ætla ekki að fara úr því í dag. Dóttirin er líka í sínum náttkjól, en það er kannski því þetta er Frozen náttkjóll og er notaður 24/7. Ég ætla ekki að ljúga, ég vildi óska að jólatréð væri hér inni stofu með fallegu jólaljósunum sínum og ég að hlusta á Michael Buble.
En ég læt jólaljósin í glugganum nægja. Já ég er búin að kveikja á jólaseríu í stofuglugganum. Ég tek þau aldrei niður, er of löt til þess og leið og fer að dimma er kveikt á þeim til að fá fallega birtu á kvöldin.
En þar sem ég er ekki með jólatré og ætla ekki alveg að fara hlusta á jólalög ætla ég að kveikja á kertum, hlusta á góða tóna, lesa bók og narta í smá konfekt.
Þetta er yndislegt konfekt. Eins og vinkona mín sagði í gær, þetta smakkast eins og jól.
Það er mjög gott að eiga þessa í kælinum. Það þarf ekkert samviskubit þegar maður fær sér svona mola. Ekkert nema holl fita sem við þurfum öll á að halda.
Þetta er líka fljótlega útbúið. Ég útbjó þetta með syni mínum, hann hjálpaði mér að búa til uppskriftina og sá svo um að sulla þessu öllu saman :)
Eigum við eitthvað að ræða þetta fallega krullaða rauða hár!!??
Súkkulaði með heslihnetum
100ml kókosolía brædd
40g sukrin melis
30g ósykrað kakó
6 dropar via-health súkkulaði stevía
50g heslihnetur
Heslihnetur settar á bökunarpappír og inn í 175 gráða heitan ofn í 5-7 mínútur. Passa að þær brenni ekki. Látið kólna og setjið í viskustykki og nuddið þær á milli viskustykkisins svo hýðið detti af. Saxið hneturnar.
Setjið kókosolíu í pott (getið verið með bragðlausa kókosolíu eða venjulega) og hitið varlega.
Sigtið sukrin melis og kakó út í kókosolíuna og blandið vel saman. Bætið við stevíu og heslihnetum.
Setjið í konfektform eða lítil muffinsform og inn í kæli. Geymið í kæli þar sem kókosolían bráðnar við stofuhita.
No comments:
Post a Comment