Tuesday, December 31, 2013

Síðasta færsla ársins.

Ég hugsa það sama á hverju ári: Ótrúlegt hvað tíminn er fljótur að líða!! Ég einhvern veginn finn það alltaf mest í lok desember. Desember mánuður hefur ekki farið mikið í að standa í eldhúsinu og ég er alveg sátt við það. Bloggið fór líka í gott jólafrí. Ég ákvað að vegna anna þá myndi ég leyfa mér að fá mér sykur og hveiti. Ekkert samviskubit eða mórall, heldur meðvituð ákvörðun um þetta. Ég hef líka fundið vel fyrir þessu. Sykurþokan hefur verið mikill og ég get því ekki beðið eftir að losna við kolvetnin aftur. 

Ég tók kannski aðeins of mikið á mig þennan desember mánuð en ég sé alls ekki eftir því. Bókin til styrktar UNICEF seldist fyrir meir en 700.000 kr og ég er afskaplega þakklát fyrir alla sem styrktu þetta verkefni. Það var ný jólastemming að sitja og handskrifa utan um meir en 600 umslög sem fóru víðsvegar um Ísland og erlendis einnig. Þið getið rétt ýmindað ykkur hvað hægt er að gera fyrir börnin á Filippseyjum fyrir þennan pening.

 Einnig byrjaði ég í nýrri vinnu korter fyrir jól bókstaflega. Ég er búin að snúast 180 gráður í atvinnu og komin á auglýsingastofu í hin ýmis verkefni. Það hefur tekið ansi mikið á að eiga eitt stykki lungnabólgu barn sem nælir sér í allskonar pestir og því kærkomið að fá vinnu sem ég get unnið að heiman og hvenær sem er sólahrings ef barnið ákveður að halda á sömu braut, en vonandi er hún að eldast úr þessu. Ég stefni svo á að halda áfram með bloggið og prófa mig áfram í eldhúsinu. Síðan komst í yfir 100.000 þúsund heimsóknir í lok nóvember og það finnst mér yndislegt. Það er kannski ekki neitt rosalega há tala en fyrir mig er hún ótrúleg :) Því er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram að prófa sig áfram og leyfa ykkur að njóta með mér. Ég er alltaf með hundrað hugmyndir í hausnum sem vilja verða að veruleika og ætla ég að verða duglegri að prófa mig áfram með mat og aðeins að minnka sætinda baksturinn, ef ég get ;)

VINSÆLAST Á BLOGGINU

Það er gaman að skoða hvað af blogginu var vinsælast. Oft var það þannig að ég bjó eitthvað til og bjóst við að það myndi slá heldur betur í gegn og svo fékk það ekki þessa miklu athygli sem ég bjóst við. Einnig var það akkúrat öfugt. Bjó til eitthvað í flýti og bjóst við að fengi enga athygli og það varð mjög vinsælt.

Kladdkakan er sú sem stendur upp úr greinilega hjá lesendum bloggsins enda yndisleg kaka. Hún hentar við öll tækifæri, er fljótleg að útbúa og þarf ekki mikið af hráefnum.


Karamellu Fudge var eitt af því fyrsta sem ég bjó til sem var LKL vænt. Hef síðan þá gert fullt af mismunandi útgáfum og hver önnur betri. 



Sörurnar, já þær hafa heldur betur fengið athygli enda sörur heilagar hjá mörgum þegar kemur að jólum. Ég skal játa það að ég hef aldrei fyrr gert sörur fyrr en ég prófaði að búa til sykurlausar. Ég bjóst við að það yrði auðvelt en nei. Það tókst samt sem áður í þriðju eða fjórðu tilraun hjá mér.



Ef ég ætti svo að velja mitt uppáhalds hmmmm það er erfitt. Valið er á milli Jarðaberja Chia ís og Lakkrís ís og ég verð að velja......Lakkrís ísinn. Ohh hann var svo góður. Ef ég hefði ekki farið upp í rúm að horfa á sjónvarpsþætti í tölvunni allt gærkvöld og sofið til hádegis í dag hefði ég skellt í þennan ís en ég er í fríi og því er í eftirrétt fyrir mig, haldið ykkur og ekki fá áfall....Royal búðingur!! Já ég tek eldhúsfríið mitt alla leið ;) Enda er ég bara mennsk og ég ákvað að leyfa mér það sem ég vil í desember án þess að fá samviskubits.


Ég vil enda þetta á að þakka ykkur fyrir samfylgdina á árinu. Takk til ykkar sem nennið að fylgjast með mér og fyrir alla fallegu tölvupóstana og skilaboðin sem þið hafið sent mér. Þið eruð yndi. Eigið þið yndisleg áramót með þeim sem ykkur þykir vænt um og farið varlega. 

Knús og kossar
Hafdís Magn




Tuesday, December 17, 2013

Kryddbrauð

Jólabarnið inn í mér gleðst mikið yfir öllum snjónum sem er búið að príða Reykjavík síðustu daga og vonar að það haldist þar til eftir jól. Það er bara ekkert eins yndislegt og hvít jól og það hefur verið fátt um það í Reykjavíkinni síðustu ár.

Á sunnudaginn fagnaði ég nýjum tug og varð heil 30 ára. Dagurinn var frábær. Við börnin eyddum honum hjá foreldrum mínum í Kópavogi og höfðum það notalegt. Kvöldið hinsvegar varð ekki eins gott þar sem ég náði að bakka á eina bílinn sem var á bílastæðinu og skemma hann ágætlega. Ég kenni lélegri sjón og viðbröðgum vegna aldurs ;)

Bókin hefur gengið vel að selja og það fer dálítið af tíma í að skrifa á umslög og setja í póst. Þar sem ég er meira og minna ein í þessu og það að koma jól þá hef ég ekki getað verið að fara á hverjum degi á pósthúsið en það tekur tíma að skrifa um 600 umslög ;) En ég hef bara gaman af þessu og finnst frábært að fyrirtæki hafa veirið dugleg að kaupa bókina fyrir viðskiptavini og starfsfólk.

Vegna þess að jólaandinn er komin yfir mig langar mig að deila með ykkur einni uppskrift úr bókinni.



Kryddbrauð


3 egg
170 g rjómaostur
120 g smjör
65 g möndlumjöl
15 g kókoshveiti
40 g Fiberhusk
60 g Sukrin Gold
2 tsk vínsteinslyftiduft (eða venjulegt)
2 msk kanill
1/2 msk negull
1/2 msk engifer
(kanill, engifer, negull eftir smekk)

Bræða smjör. Smjör og rjómaostur pískað vel saman í skál. Í annarri skál er Sukrin Gold, stevíu og eggjum þeytt saman og svo bætt út í skálina með smjörinu og rjómaostinum. Þurrefnum blandað saman og síðan blandað við restina. Sett í brauðform og inn í 175 gráðu heitann ofn í 30-40 mínútur.


Friday, December 13, 2013

Graflaxsósa


Ég elska graflax og graflaxsósu. Það er samt ekki mörg ár síðan ég byrjaði að borða það enda var ég og er enn óttalegur gikkur. Ég grét pínu inn í mér þegar ég komst að þvi að það væri engin sykurlaus sósa og að graflaxinn væri með sykur í. En, svo fann ég  fyrirtæki sem bjó til fyrir mig graflax án sykurs og þá var bara að útbúa sína eigin graflaxasósu :)

Graflaxsósa


100 g majónes
1/2 msk sinnep
1-2 tsk dill
1 1/2 msk Sukrin Gold
3 msk sítrónusafi
5-7 dropar Via Health sítrónu dropar
Salt og pipar eftir smekk

Öllu blandað saman í litla skál og smakkað til :-)


Sunday, December 8, 2013

Avocado franskar


Dagurinn í dag fór í afmæliskaffi fyrir ömmu mína og afa og svo að hoppa upp á skrifstofu hjá 23 og skrifa utan á nokkur hundruð umslög sem fara í póst á morgunn, já bókin fer í póst á morgunn Woop Woop :-)

Hinsvegar er ég búin að vera aðeins að brjóta heilan varðandi uppskriftir því Vikan bað mig um að vera matgæðingur hjá sér í Janúar og ætla að koma fyrir næstu helgi að taka myndir. Og þá er spurning hvað skal bjóða upp á!? Ég hef verið mikið að hugsa um avocado franskar og ákvað að prófa þær í kvöld og já!! Þetta er eitthvað sem fær að rata í Vikuna en ég bara gat ekki beðið með að setja þetta fyrir ykkur á bloggið!!



Avocado franskar


1 avocado
1 egg
kókoshveiti
rifin parmesan ostur
hvítlaukssalt
salt og pipar

Egg sett í skál og létt pískað með gaffli og krydd bætt út í eftir smekk. Avocado er skorið í lengjur og dýft ofan í egg-kókoshveiti-egg-parmesan. 
Sett á bökunarpappír og í ofn sem er 200 gráður í 10-15 mín eða þangað til osturinn er orðin gylltur.


Ídýfa


5 msk majones
3 msk fínsöxuð koriander
nokkrar tsk af sítrónusafa (eftir smekk)

Allt sett í skál og blandað með töfrasprota eða í blandara.


Friday, December 6, 2013

Dísu súpa


Á svona köldum dögum er yndislegt að fá sér heita súpu. Þessa geri ég alltaf reglulega ef ég á afgangs kjúkling eða hakk. Mæli aldrei neitt sérstaklega í hana heldur hendi í hana það sem til er og ég verð aldrei fyrir vonbrigðum.



Dísu súpa

1 dós af söxuðum tómötum.
1/2 líter af vatni
1 grænmetis eða kjúklinga teningur
Paprika, gulrætur, eða það grænmeti sem til er í kælinum.
2-4 hvítlauksgeirar
100 g rjómaostur
Basilika
salt og pipar

Vatn og matarteningur sett í pott og hitað. Tómatar og hvítlaukur bætt út og látið ná suðu.
Maukað með töfrasprota svo úr verður fín súpa. Smátt saxað rænmeti og afgangs kjöt sett út í ásamt rjómaosti og kryddum (eftis smekk) og látið malla í 15-20 mín.

Sett í skál og bætt við vel af rifnum osti út í ásamt ferskri steinselju.
mmmmm í alvöru hún er æði!. Það er hægt að minnka vatnið og hafa hana þykkri eða setja meira vatn og þynna hana (gott að krydda meir þá). Einnig hægt að setja grænmetið strax með ofan í með tómötunum og mauka. Hentar fyrir gikki eins og mig ;) Rifni osturinn verður æði og ég á núna alltaf tómata i dós upp í skáp just in case ég hendi í þessa súpu.


Thursday, December 5, 2013

Lakkrís trufflur


Ég hef ekki haft mikinn tíma til að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu og blogga. Börnin hafa skipst á að vera veik. Emma er búin að vera meira og minna veik allan nóvember mánuð og loks í gær þegar hún var orðin vel hraust og tilbúin í leikskólann kom Alexander til mín rétt áður en við fórum út úr húsi og sagðist líða einhvað skringilega. Ég var mjög vond mamma og hélt að þetta væri miðjubarna syndrome. Systir hans búin að fá svo mikla athygli út af veikindum sínum og hann er aldrei veikur og hélt því að hann væri að reyna að plata til að eiga smá stund með móður sinni. Þegar hann sagði svo að hann væri með hausverk og ég mældi hann þá var hann klukkan átta að morgni með 39 stiga hita. Ó hvað mömmuhjartað fékk mikla samvisku að hafa haldið að hann væri ekki að segja satt. Man hreinlega ekki hvenær hann fékk hita síðast, allavega nokkur ár síðan. Þannig að mæta í vinnu var ekki á dagskrá, eina ferðina enn.

Bókin er komin á fullt í sölu og hefur gengið vel. Var að klára prentun núna klukkan tíu og þá er bara að við skytturnar þrjár (ég, Ágúst og Andrea sem eru með mér í þessu verkefni) setjumst niður og setjum bókina í umslag. Ég fékk að sjá loksins bókina í gær og flétta henni. Það sem hún er falleg :-) Svaf með hana á náttborðinu mínu.

En ætla að setja uppskrift af lakkrís trufflum. Ofur einfalt og sjúklega gott. 



Lakkrís trufflur


200 súkkulaði, 70%
1 1/2 dl rjómi
1-2 tsk lakkríspúður

Rjómi hitaður í potti. Tekið af hellu áður en rjóminn nær suðu og súkkulaði bætt út í. Hræra vel í rjóma og súkkulaði þar til alveg blandað. Bæta lakkríspúðri við og hræra vel saman við súkkulaðið.

Setja í sprautupoka og sprauta í lítil konfekt form eða setja í skál og geyma í kæli í klt og búa til litlar kúlur. Hægt að skreyta kúlurnar með söxuðum hnetum eða kakódufti. Ef sett í konfektform er gott að skreyta með smá klípu af salti eða chili.