Sunday, August 31, 2014

Hnetusmjörs brownie

Þá er sumarið formlega búið. Börnin byrjuð í skólanum og fyrstsa haustlægðin búin að herja á okkur síðasta sólarhinginn. Eins og alltaf þegar haustið byrjar að taka á sig mynd og ég kveiki á trilljón kertum þá kemur jólabarnið upp í mér. Já ég er þessi skrítna sem byrja að hugsa og skipuleggja jólin í lok ágúst. En að bakstri. Henti í þessa köku í dag því ég varð að prófa nýju strásætuna frá Via-Health sem er væntanleg í Krónuna núna eftir helgina og ómæ ómæ, þetta var svooo gott. Stundum finnst mér það vera kostur ef börnin finnst baksturinn vondur, þá þarf ég ekki að deila með þeim. Eins og með þessa. Hefði alveg mátt finnast hún vond svo ég gæti notið þess að borða allan skammtin ein.




Hnetusmjörs brownie

60g smjör
60g sykurlaust súkkulaði
1 egg
1 eggjarauða
3msk Fínmalað Erytrítól frá Via-Health eða sukrin melis
1/2 tsk vanillu extract eða dropar
6 dropar Via-health original stevía
1.5-2 msk ósykrað kakó
2 tsk eða msk af hnetusmjöri

Smjör og súkkulaði sett í pott og brætt á lágum hita.
Egg, eggjarauða, strásæta, stevía og kakó þeitt vel saman í tvær mínútur.
Bætið súkkulaðið við og blandið vel.
Smyrjið með smjöri tvö lítil eldföst mót (eins og maður notar fyrir creme brulee)
Setjið helminginn af deiginu í formin, setjið sitthvora tsk eða msk af hnetusmjöri í mitt formið og svo hellið rest af deigi yfir. Bakið á 190 gráður í 10-12 mínútur.
Látið kólna. Notið hníf til að losa kökuna frá hliðum formsins og setjið á disk. Setjið smá fínmalaða strásætu yfir og berið fram með þeyttum rjóma.

Það er örugglega líka mjög gott að setja heslihnetusmjör eða núggat í stað hnetusmjörsins.




Tuesday, August 26, 2014

Sítrónukaka

Namm!
Ég hef ekki annað orð yfir þessa köku nema namm!
Í vor prófaði ég í fyrsta sinn að nota baunir í bakstur. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki baunakona, borða ekki baunir og hvað þá að baka með þeim, neibb það er ekki ég. En ég ákvað að prófa þegar ég var að búa til uppskriftir fyrir bókina mína og það heppnaðist undantekningalaust vel að nota baunir. Ég veit að þetta hljómar ekki vel en trúið mér, baksturinn verður margfalt betri. Það gæti leynst örlítið baunabragð strax eftir bakstur (finn það ekki sjálf né aðrir á heimilinu) en það hverfur þá eftir nokkra klt.

Ég hef lært að segja ekki börnum mínum hvað baksturinn eða maturinn inniheldur fyrr en þau eru búin að smakka því oft er sagt ojj og smakkið þá út frá því. Þegar þau smökkuðu fyrstu baunakökuna mína var hún kláruð á 30 mínútum og þau átu á sig gat. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á þeim þegar mamman sýndi þeim að hún notaði baunir í baksturinn. Í dag eru þau spennt þegar þau sjá mig taka fram baunakrukkuna því það þýðir að mamma ætlar að baka eitthvað hrikalega gott.
Þar sem ég átti sítrónu langaði mig ógurlega mikið í sítrónuköku.




Sítrónukaka

240g (ein krukka) hvítar baunir frá Himnesk Hollusta
100g mjúkt smjör
100g sukrin
4msk kókoshveiti
2msk möndlumjöl
50g hreint jógúrt
80ml sítrónusafi
börkur utan af einni sítrónu
1 tsk vínsteinslyftiduft eða venjulegt lyftiduft ef þolir glúten
4 egg
1msk vanillu extract eða vanilludropar
6 dropar Via-health sítrónudropar

Skolið baunirnar og setjið í blandara eða matvinnsluvél ásamt öllu hráefni og blandið þar til deigið er án kekkja. Setjið í silikon brauðform og bakið á 170 gráður í 45-50 mínútur eða þegar tannstöngull kemur hreinn upp úr miðju.

Thursday, August 21, 2014

Súkkulaði mjólk

Ég er mjólkurfíkill. Ætli mjólkurfíkninn hafi ekki komið þegar ég var þunguð af elsta barninu. Ég vaknaði um miðjar nætur og þambaði mjólk beint úr fernunni. Það var ekki ein ferna eða tvær heldur nokkrar. Og þegar barnsfaðir minn vaknaði um morguninn þá var búið að raða fallega tómum mjólkurfernum á eldhúsborðið. Mjólkur löngunin var ekki bara á næturnar. Í skólanum átti ég það til að hlaupa eins og vindurinn í sjoppuna og kaupa mér litla mjólkurfernu og stúta henni á núll einni. Eða svo segja vinkonur mínar.

Ekki má gleyma piparkökur og íssköld mjólk eða bara köld mjólk með hvaða smákökum sem er! 
Ohhh það er himnaríki sú samsetning. En ég hef verið dugleg að láta mjólkina vera og hún er meira svona spari spari. En svo gerist stundum að maður sullar hinu og þessu saman í eldhúsinu að búa eitthvað til og í dag varð það mjólk og svo var sullað meira og súkkulaðimjólk varð til.


Súkkulaði mjólk

450ml möndlumjólk
80ml rjómi
1msk ósykrað kakó
10-15g sukrin (smakkið til)
2-3 dropar af Via-Health súkkulaði stevíu

Setjið í hristara og setjið lokið á. Hristið vel þar til blandað og smakkið. Setjið frekar minna af sætu en meira til að byrja með og smakkið til. Hellið í tvö glös eða bara eitt stórt glas.



Monday, August 18, 2014

Jarðarberjasmjör


Eftir mikið fikt í tölvunni er ég loksins komin með nýtt útlit á síðunni sem mér líkar. Ég er reyndar eins lítið fyrir bleikt og hægt er en ætli dóttir mín sé ekki búin að smita mig aðeins af áráttunni sinni fyrir bleikum lit. Hvernig finnst ykkur útlitið koma út?

En þegar sólin skín og sumarið fer brátt að hverfa þá er gott að fá sér eitthvað sem minnir mann á þessar yndislegu sólríku stundir.  Ég prófaði tvær uppskriftir af jarðarberjasmjöri. Báðar jafn góðar :) 

Jarðarberjasmjör


 Jarðarberjasmjör með aðferð 2

Aðferð 1


110g mjúkt smjör
5-6 fersk jarðarber
1/2 tsk sítrónu safi
1 tsk sukrin melis

Skolið jarðarberin og maukið með töfrasprota. Sigtið maukið og setjið í pott. Látið hitna á miðlungshita og bætið við sítrónu safa og sukrin melis. Hrærið í pottinum í 2 mínútur og takið af hellunni. Þegar maukið hefur kólnað setjið þá í skál ásamt smjörinu og þeytið saman. Færið yfir í krukku eða skál.

Aðferð 2


110g mjúkt smjör
5-6 jarðarber
2-5 dropar jarðarberja stevía

Skolið jarðarberin og saxið smátt. Setjið þau í skál ásamt smjörinu og stevíu og þeytið þar til vel blandað.

Saturday, August 16, 2014

Biscotti með macadamiu hnetum og núggat súkkulaði

Ég er búin að hafa mikla þörf í sumar að föndra allskonar. Það nýjasta er að búa til kökudiska. Gamall kertastjaki, diskur og smá sprey eða málning sem hentar fyrir matvörur og svo gott lím og þú ert komin með nýjan kökudisk.
Í gær fór ég í Rúmfatalagerinn og fann þar skál og kertastjaka og bjó til þessa krúttuðu smákökudiska.












 Eins með baksturinn ef þurft að pína mig til að baka til að koma mér í gírinn. Í dag ákvað ég að prófa að gera biscotti og nota uppskrift sem ég fann á netinu. Ég mæli með því að lesa vel og vandlega uppskriftirnar áður en farið er af stað. Ég komst að því að ég gerði smá villu þegar ég var búin að henda deginu inn í ofn. Komu smá brunnar út en svo sem gerir ekkert til. Jónbi kom heim úr vinnunni og kláraði brunarústirnar á núll einni. Fannst þær góðar. Ýmindið ykkur hversu góðar þær eru óbrenndar þá! Nýr skammtur verður því gerður á morgun.



Biscotti

75g smjör, stofuhita
100g sukrin
10 dropar stevía bragðlaus
2 egg
1 tsk vanillu extract
220g möndlumjöl
2 tsk lyftiduft
40g macadamíu hnetur
1stk Debron súkkulaði með núggat

Þeytið smjör og sukrin saman. Bætið við eggjum, eitt í einu. Setjið vanillu extract og stevíu út í. Setjið möndlumöl og lyftiduft í skál og blandið saman. Saxið hnetur og súkkulaði niður og blandið öllum hráefnunum saman. Setjið á vaxpappír eða silikonmottu og breiðið úr deiginu og hafið það um 1 cm þykkt. Bakið á 180 gráður í 15-20 mínútur eða þar til gullinbrúnt. Takið úr ofninum og látið kólna áður en skorið er í bita.


Saturday, August 2, 2014

Bounty bitar

Eftir gott sumarfrí á nýja fellihýsinu og jeppanum þar sem við fjölskyldan eltum sólina hringinn í kringum landið erum við að njóta þess núna að taka því rólega heima. Bakstursgleðin hefur líka tekið gott frí og hef ég haft föndurþörf mikla og það aðalega úr tjulli. Nú er ég svo að fara í það að breyta uppáhaldshæla skónum mínum í glimmerskó og svo að prófa að búa til sjálf kökudiska úr ódýru hráefni. Já DIY (do it yourself) æði er búið að hellast yfir mig. Í dag byrjaði bakstursgleðin svo að taka á sig mynd og fullt af hugmyndum komnar í hausinn sem vilja brjótast út.



Bounty bitar.

80ml kókosolía
100ml kókosmjólk (þykkari hlutinn)
80ml kókosolía
100ml kókosmjólk (þykkari hlutin
110g sukrin melis 
250g kókos 
15 dropar kókos stevía
 um 200g sykurlaust súkkulaði 

Kókosolía og kókosmjólk eru hituð í potti ásamt stevíu. Takið af hellu þegar vel blandað saman. Bætið út í sukrin melis og kókos og blandið vel. Formið í litla bita og kreistið frá vökva ef þess þarf. Setjið bitana í kæli í 20 mín eða frysti í 10 mín og dýfið svo í brætt súkkulaði. Látið harðna á bökunarpappíri.  Gott að geyma í kæli.