Saturday, September 19, 2015

Sykurlausir sykurpúðar


Fyrir meira en ári síðan sat ég með mömmu minni að spjalla við hana og meðal annars var verið að ræða sykurlausar uppskriftir. Einhverstaðar í umræðunni spurði mamma mig hvort ekki væri hægt að gera sykurlausa sykurpúða. Fyrst var ég alveg ehhh nei mamma en svo fór hausinn að rúlla og þessi uppskrift varð til.







Sykurlausir sykurpúðar

3 eggjahvítur úr stórum eggjum
4 matarlímsblöð
3msk vatn
1tsk vínsteinslyftiduft
90g Sukrin Melis
15 dropar vanillu stevía
saltklípa
fræ úr 1 vanillustöng

Stífþeytið eggjahvítur. Bætið smátt og smátt við vínsteinslyftiduft, sukrin melis og salt.
Fræhreinsið vanillustöng og bætið út í ásamt stevíu.

Matarlímsblöð eru látin liggja í vatnsbaði í 5 mínútur.
Setjið 3msk af vatni í pott og kreistið matarlímsblöðin svo aukavatn fari úr þeim og setjið í pottinn og hitið þar til þau leysast upp.
Bætið matarlíminu varlega út í eggjahvíturnar og þeytið á meðan á miðlungshraða. Þeytið svo á hæðsta hraða í ca 3 mínútur.

Setjið í lítið form sem búið er að strá sukrin melis á botninn. Dreifið sukrin melis einnig yfir sykurpúðana og setjið svo í kæli í ca. 1klst eða þar til púðarnir eru farnir að stífna en gefa eftir ef ýtt er á þá. Skerið í bita og skreytið með bráðnu súkkulaði og hnetum, salti eða chili.
Geymið í lokuðu íláti í kæli.



Saturday, September 12, 2015

Eplakaka





Tíminn þýtur áfram eins og vanalega og allir komnir í sína rútinu eins og hún á að vera.
Langar að nefna það að og biðja fólk að gera verðsamanburð þegar það t.d. kaupir gler í gleraugu fyrir sig eða börnin.

Nú á ég tvö börn sem þurfa gleraugu og þarf að skipta um gler hjá þeim 1-2x á ári og þau eru með mikla fjarsýni auk þess að annað er með sjónskekkju og hitt þarf tvö missterk gler fyrir sitthvort augað.

Ég byrjaði á að fara í þá búð sem er næst okkur og kíktum á umgjarðir þar sem boðið var upp á fría umgjörð með glerinu. Leist vel á það og fyrir strákinn hljómaði glerið upp á 25.000kr. Ok svo sem allt í lagi en ég dó næstum þegar sagt var við mig að glerin fyrir stelpuna væru á 49.000kr. Ehh já bara. Ehhm heyrðu ég ætla aðeins að skoða þetta takk og bakkaði varlega út áður en ég hljóp eins og fætur togaði í burtu, svitnandi við tilhugsunina að borga 75.000kr fyrir ný gler fyrir krakkana.

Ég hringdi svo í Augastað í Mjóddinni og þar kostaði fyrir stelpuna glerin 14.000kr! Vá engin smá munur! Glerið fyrir strákinn munaði ekki miklu eða 22.000kr sem skiptir samt máli. Svo ég fékk fríar umgjarðir þar einnig og borgaði 36.000kr fyrir þau bæði, sem nær ekki einu sinni verðinu á bara hennar gleri!

En ok, búin að pústa þessu úr mér og komið að því að tala um köku, eplaköku. Það er algjört möst að eiga alltaf að minnsta kosti einn pakka af kökumixi frá Funksjonell upp í skáp þegar ég vil baka eitthvað fljótlegt en ótrúlega gott. Í dag ákvað ég að skella í eplaköku, þar sem eplin sem voru til í kælinum voru að koma á síðasta snúning.

Ég breytti aðeins og gerði 20cm köku sem passar fullkomlega á nýja sæta kökudiskinn minn sem ég fékk í Rúmfatalagernum á 1290kr minnir mig. Finnst best að baka þessa stærð af kökum en hundleiðinlegt að vera með of stóran kökudisk.


Eplakaka


1/2 pakki af kökumixi frá Funksjonell (ca 180g)
50g brætt smjör
2 stór egg
1dl AB mjólk
1epli
2msk Sukrin Gold
1msk Kanil

Blandið öllu saman í skál  (ekki epli, sukrin og kanil) og blandið vel saman. Ég lét Hrímu mína (kitchenaid vélin mín) sjá um þetta fyrir mig á meðan ég skar niður eplið. Afhýðið eplið og skerið í sneiðar.

Setjið deigið í 20cm silikonform og dreifið vel úr. Setjið eplasneiðar yfir kökuna svo þau hylja hana alla.

Stráið yfir kanil og sukrin gold og bakið svo á 175 gráður í ca 30-40 mínútur eða þar til gaffall kemur hreinn úr kökunni þegar stungið er í hana miðja.

Færið yfir á kökudisk og stingið þó nokkur göt á kökuna og dreyfið yfir hana Fibersirup Gold.



Saturday, September 5, 2015

Hnetu kladdkaka

Þessi uppskrift er nýjasta æðið á heimilinu hjá mér. Lítil uppskrift sem dugar fyrir einn eða tvo. Þetta er eins og snickers í kökubúningi.



Hnetukaka


1 egg
40g sykurlaust súkkulaði
3msk hnetumjöl frá Funksjonell
1msk kókoshveiti frá Funksjonell
2msk rjómi
1,5msk ósykrað kakó
1,5msk sukrin gold
1tsk vanilludropar

Þurrefnum blandað vel saman í skál. Pískið eggið ásamt rjómanum með gaffli. 
Saxið niður súkkulaði (ef þið viljið glúten og sykurlaust mæli ég með IQ súkkulaðinu)
Blandið öllu saman.
Smyrjið lítið form (ég var með 12cm form) með smjöri og setjið deigið í.
Bakið á 150 gráðum í 12-14 mínútur.

Kakan á að vera blaut í miðjunni.

Þegar ég tók hana úr ofninum stakk ég nokkur göt á kökuna og hellti Fibersirup Gold yfir og svo heslihnetukurl. Frábær með þeyttum rjóma og berjum.
Borðið kökuna heita.






Tuesday, September 1, 2015

Amerískar pönnukökur

Enn og aftur komin ný vika. Tíminn þýtur frá manni. Áður en maður veit af verða komin jólaljós út um allt og jólalög í útvarpið. Ég bíð mjög spennt eftir því. Þarf kannski ekki að taka fram að ég er búin að kveikja á ljósunum í stofuglugganum enda meira skammdegisljós en jólaljós.

En áður en ég fer að lofa jólunum þá er nú búið að vera yndislegt veður síðan ég byrjaði að vinna og krakkarnir í skólanum. Það er ótrúlega skrítið að eiga ekki lengur leikskólabarn. Litla barnið byrjað í skóla. Eins og ég sagði, tíminni þýtur frá manni.

En á meðan tíminn er að þjóta þá er gott að gefa sér tíma til að njóta með þeim sem maður elskar.
Þessi uppskrift er fullkomið að gera þegar tími gefst og njóta með ástvinum. Ekki verra að eiga Fibersirup Gold og hella yfir þær. Það er eiginlega punkturinn yfir i-ið.



Amerískar pönnukökur


4 egg
4msk Sukrin Gold
4msk kókoshveiti
1,5dl mjólk af eigin vali (möndlu, létt, nýmjólk)
1msk vanilludropar eða vanilla extract
1/2tsk Xhantan gum



Þeytið egginn vel og bætið svo Sukrin Gold við og hrærið ögn lengur. Bætið við restinni af hráefnunum og blandið vel. Látið standa í 5 mínútur þar til farið að þykkjast. Hitið pönnukökupönnu vel og stillið svo á meðal hita og bræðið smjör og bakið litlar pönnukökur. Gott að bera fram með jarðarberjum og Fibersirup Gold.