Monday, December 11, 2017

Kanilís



Kanill er eitt af mínu uppáhaldskryddum í desember mánuðum og finnst mér gaman að setja hann í hinar ýmsu uppskriftir. Hér er ég með kanilís uppskrift sem er einstaklega hátíðleg ;)


Kanilís

2dl rjómi
2 eggjarauður
50g Sukrin Melis
1/2-1 tsk kanil, smakkið til


Eggjarauður og Sukrin melis þeytt vel saman og sett til hliðar.
Rjómi þeyttur til hálfs og eggjarauður og Sukrin sett í skál með rjóma og blandað saman. Í lokin er kanil settur út í, 1/2tsk og smakkað til.

Monday, November 20, 2017

Hveitislausar beyglur






Beyglur


200g möndlumjöl
280g rifin ostur
60g rjómaostur
2 egg
1tsk lyftiduft
sesamfræ

krydd t.d oregano eða pizzakrydd fyrir þá sem vilja


Möndlumjöl og lyftiduft blandað saman og set til hliðar.
Pískið eggin vel saman og ef þið ætlið að krydda beyglurnar, setjið kryddin með eggjunum.
Rjómaostur og rifin ostur sett í skál og inn í örbylgjuofn í 2 mín. 
Takið út og hrærið vel saman. Ef osturinn er ekki alveg bráðnaður, setjið aftur í örbylgju í smá stund og endurtakið.

Möndlumjöl og egg bætt við ostinn og blandið mjög vel saman. Ef það verður erfitt, setjið aftur í örbylgju í 10 sek og hrærið í. Endurtakið ef þess þarf þar til deigið er vel blandað saman.

Skiptið deiginu í 6 hluta og rúllið út með blautar hendur og útbúið hring á bökunarpappír svo úr verður beygla. Stráið sesamfræjum yfir.

Bakið á 180 gráðum í 12-15 mín eða þar til gylltar.

Borðið heitar.
Gott er að frysta beyglurnar og skera í sundur og rista.




Sunday, November 19, 2017

sykur og hveitislaus lagkaka



Fyrir tveimur árum síðan var ég að baka með krökkunum mínum rúllutertu. Þegar botninn var komin úr ofinum og ég að setja kremið á þá einhvern vegin datt í kollinn hjá mér að auðvelt væri að búa til lagköku úr uppskriftinni með smá breytingum.

Ég var fljót að henda í nýjan skammt og útbúa lagköku og hún slá heldur betur í gegn hjá börnunum og jú hjá mér líka ;)



Lagkaka

3 egg - aðskilja rauður og hvíturnar
100 g  rjómaostur 
2 msk möndlumjöl
1 tsk vínsteinslyftiduft eða venjulegt lyftiduft
salt klípa
30 g sukrin melis
2-3 msk brúnkökukrydd

Stífþeytið eggjahvíturnar ásamt lyftidufti og salt klípu. Þeytið hitt hráefnið í annarri skál. Bragðið á til að finna hversu mikið brúnkökukrydd þið viljið. Bætið eggjahvítum varlega saman við seinni skálina. Dreifið á olíuborinn bökunarpappír eða smjörpappír sem fyllir heila ofnskúffu. Bakið við 175 gráður í 10-15 mínútur.

Krem:
100 g smjör
80 g sukrin melis
1 msk vanilluextract eða dropar


Þeytið smjörið ásamt örlítlu af sukrin melis. Bætið smátt og smátt meiru af sætu út í og síðast setjið þið vanilla extract eða vanilludropa í kremið.

Skerið deigið í sex jafnstóra bita. Smyrjið kremi á einn bitann, setjið síðan lag yfir og endurtakið þar til úr verður þrjár hæðir. Setjið kökurnar í álpappír og geymið í kæli.


Thursday, November 2, 2017

Ostakaka með piparkökubragði


Þegar börnin koma með hugmyndir af nýjum uppskriftum þá reynir maður að finna leið til að þær rætist. Dóttirin vildi fá köku með piparkökubragði, helst osta en mátti líka vera skyr.
Mér fannst það bara góð hugmynd og því varð úr þessi uppskrift :)
Eiginmaðurinn stal svo kökunni með í vinnunna og skilst mér að þar hafi hún klárast fljótt :)


Botn

100g smjör
120g möndlumjöl
3msk Sukrin Gold
1msk kanil

Bræðið smjör í potti.
Bætið við öllu hráefninu í pottinn og blandið vel saman.
Setjið í 20 cm silicon eða springform (ef springform, spreyið með olíu eða smyrjið formið með bræddu smjöri fyrst).
Þjappið  botninum vel niður og  aðeins upp með hliðum.

Bakið á 170 gráðum í ca 10-12 mínútur eða þar til gyllt.
Kælið.


Fylling

250g rjómaostur
70g Sukrin Melis
1tsk vanillu extract eða dropar
3dl þeyttur rjómi
3msk Fibersirup Gold
2tsk kanil
1tsk negull
1tsk engifer

Rjómaostur og sukrin melis hrært vel saman. Bætið við vanilla, Fibersirup Gold og kryddi. Í lokin er þeyttur rjómi bætt við og öllu blandað vel saman.


Setjið yfir botninn og frystið í 2- 3 klukkutíma.


Wednesday, October 25, 2017

Piparmyntu mokka



Ég er svo mikið jólabarn en ég næ svona að mestu að springa ekki út í jólafagnaði fyrr en um miðjan nóvember. Það var samt ansi fyndið þegar elsti minn hringdi í mig frá Akureyri í gær og maður heyrði í jólalögunum í bakgrunninn. Alveg eins og móðir sín ;)

En þó að jólin eru ekki aaalveg komin þá er samt voða gott þegar veturinn er skollinn á og kuldin farin á stjá að fá sér góðan drykk sem er í stíl við árstíðina.

Hér er uppskrift af einum drykk sem lætur mann hlakka til jóla.


Piparmyntu mokka kaffi

Hráefni

350ml kalt kaffi 
125ml möndlumjólk eða rjómi
 2tsk ósykrað kakó
 2msk sukrin eða 1,5msk sukrin melis
 1/2-1 tsk piparmyntudropar




Aðferð
Setjið allt í blandara og blandið vel saman.
Hellið í tvö glös.
Setjið þeyttan rjóma eða þeyttan kókosrjóma og örlítið af sykrlausu rifnu súkkulaði.
Ef þið viljið þykkari drykk, stráið örlítið af Xanthan gum
 í blandarann með hráefninu, 1/8 af tsk ca.

Tuesday, October 24, 2017

Kókoskökur



Kókoskökur


85g kókosmjöl
25g brætt smjör
20g sukrin melis
1/2tsk vanillu extract eða dropar
1 eggjahvíta.

Blandið öllu saman í skál.
Búið til 10 kúlur og setjið á bökunarpappír.
Fletjið kúlurnar út með fingrum eða gaffli.
Bakið á 175 gráður í 15 mín. eða þar til gylltar.







Friday, October 20, 2017

Vanillu ostakaka


Erfitt hefur verið fyrir mig að dröslast inn í eldhús og útbúa eitthvað gott með kaffinu. Ég er alltaf með fullt af hugmyndum af girnilegum mat/eftirréttum en það er víst ekki nóg heldur þarf einnig að framkvæma.
Þar sem það er föstudagur er um að gera að vera í baksturshugleiðingum fyrir helgina.
Hér er uppskrift af sykurlausri vanillu ostaköku. 
Já ég er dáldið mikið fyrir ostakökur ;)



Vanilluostakaka



Botn:

100 g smjör 
120 g möndlumjöl
 2 msk. sukrin gold 


Bræðið smjör í potti ásamt möndlumjöli og sukrin gold. Blandið vel saman.
 Dreifið á bökunarpappír og bakið á 180 gráðum í 5 mínútur eða þar til botninn er orðinn gullinbrúnn. Látið kólna, myljið niður og setjið í springform með bökunarpappír á botninum.


Fylling

200 g rjómaostur
 2 egg - aðskilja rauður og hvítur 
2 dl rjómi 
80 g sukrin gold
 1 tsk. vanilluextrakt
 ½ vanillustöng

Stífþeytið eggjahvítur ásamt fræjum úr vanillustöng. 
Rauðurnar eru þeyttar ásamt rjómaosti, sukrin gold, vanilluextrakti.
 Rjóminn er þeyttur; öllu er blandað saman og dreift ofan á botninn. 
Sett í frysti í 2-3 klst. Skreytið með bræddu súkkulaði eða hnetum.



Tuesday, August 8, 2017

Eggja muffins


Hentugar í nestisboxið eða sem morgunmatur.
Hægt að gera margar og frysta og hita svo í örbylgju ;)

Svo er um að gera að leika sér með innihaldið. Nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni og nota afganga.







2 egg
 30 g rifinn ostur 
15 g beikon, skorið í litla bita 
2 pepperonisneiðar, smátt skornar 
nokkur spínatlauf, smátt söxuð 
salt og pipar eftir smekk
 steinselja



Eggin sett í skál og pískuð vel. 
Kryddað eftir smekk með salti, pipar og steinselju. 
Hitt hráefnið sett í skál og hrært vel saman.
 Sett í múffuform úr sílíkoni. 
Gott að nota gaffal til að hræra í hverju formi til að gæta þess að allt blandist jafnt í formunum.
 Bakað við 180 gráður í ca. 15 mínút

Tuesday, June 20, 2017

Pekanhnetubaka


Hér er ein uppskrift sem er tilvalin fyrir hvaða dag vikunnar og er tilvalin á bloggið hjá mér þar sem afmæli eiginmannsins er í lok vikunnar og er þetta eitt af því fáu sem ég hef bakað sem hann gúffaði í sig en hann er ekki mikið sætindamaður.  Sorglegt að ég hef ekki bakað hana síðan. Hver veit nema ég skelli í eina um helgina ;)



Botn

130g möndlumjöl
1/2tsk matarsódi
50g smjör
3msk sukrin gold 

Blandið þurrefnum saman í skál. Bræðið smjör og bætið því við.
Setjið í 20-22cm hringform (mér finnst best að nota silikonform, annars þarf að pennsla með bræddu smjöri eða olíu)
Þrýstið botninum vel niður í formið og upp með hliðunum.
Bakið í u.þ.b. 10 mínútur við 175 gráður.


Fylling

100g sukrin melis
2msk sukrin gold
2 stór egg
2msk möndlumjólk eða rjómi
1msk möndlumjöl
1tsk vanillu extract eða dropar
100g saxaðar pekanhnetur
(geymið nokkrar heilar til að skreyta)

Egg, sukrin melis og sukrin gold pískað vel saman.
Hinu hráefninu er bætt út í og blandað vel saman.
Setjið í formið og skreytið með pekanhnetum.
Bakið á 160 gráðum í 30 mínútur án blásturs.
Setjið álpappír lauslega yfir bökuna og bakið áfram í 20-30 mínútur til viðbótar.

Er best beint úr ofninum með þeyttum rjóma.


Wednesday, May 10, 2017

Lakkrís skyrterta




Ok.....þessi uppskrift varð til í gær í vinnunni.
Að sjálfsögðu breyttist hún svo eitthvað þegar maður var komin heim og byrjaður að blanda saman hráefnum en ég verð að segja að þetta heppnaðist ljómandi vel þó ég segi sjálf frá ;)

Hún er ótrúlega auðveld að útbúa og mæli ég með því að skella í þessa.


Lakkrís skyrterta

Botn

120g möndlumjöl
60g smjör
1msk sukrin gold (má sleppa)
1msk ósykrað kakó
2msk kókosmjöl

Bræðið smjör í potti og bætið svo við rest af hráefnum og blandið vel saman.
Setjið í 20cm silikonform og þrýstið og dreifið jafnt yfir botninn á forminu.
Bakið á 180 gráðum í 5 mínútur og látið kólna.

Fylling

400ml vanillu skyr.is
300ml rjómi
1msk Johan Bulow raf lakkrísduft eða annað lakkrísduft
50g sykurlaust dökkt súkkulaði (má sleppa)
3 matarlímsblöð

Þeytið rjómann.
Hrærið skyrinu við.
Saxið niður súkkulaðið og hrærið út í ásamt lakkrísduftinu.
Bræðið matarlím í potti ásamt 2msk vatni.
Látið kólna örlítið og hrærið varlega við.
Hellið fyllingu yfir botninn og setjið í frystinn í 1.5-2klst.
Fjarlægði tertuna úr forminu á meðan hún er frosin, setjið á tertudisk og geymið í kæli.


Ef þið viljið ekki nota matarlím eða eigið það ekki til, er hægt að sleppa því og setja botninn í eldfast mót og fyllinguna svo yfir.



Thursday, March 30, 2017

Hnetuþruman


Ég og synir mínir deilum því að elska hnetur og hnetusmjör.
Dóttir mín og eiginmaður deila þessu ekki með okkur.
Jú eiginmaðurinn getur alveg fengið sér hnetur og hnetusmjör en finnst það ekki ómissandi eins og við. Dóttir mín vill ekki sjá hnetur. Þær eru ógeðslegar. Nú, þá er bara meira fyrir okkur hin.

Ég fékk um daginn gefins 1kg af hnetusmjöri. Yngri sonur minn ljómaði af gleði. Mætti halda að það hafi verið jól hjá honum. Eldri sonurinn fékk senda mynd af hnetusmjöri og var öfundsjúkur.

Það sem mér fannst betra við þetta hnetusmjör en það sem ég er vön að kaupa er hversu mjúkt það er. yfirleitt þarf ég að taka skeið og hræra olíunni í smjörið til að geta tekið það úr krukkunni og oft er það of hart í baksturinn.
Þetta hnetusmjör hentar því vel í bakstur og í búst. Skal líka alveg viðurkenna að stundum leynist ein og ein skeið ofan í dolluna og upp í mig.

Hér er góð uppskrift af hnetusmjörsdrykki sem við fáum okkur stundum.






250ml möndlumjólk
2bollar klakar
2msk hnetusmjör
1tsk kókoshveiti
2msk rjómi (má sleppa)
1msk sukrin gold



Setjið allt í blandara og blandið í u.þ.b. 2 mínútur.
Hellið í tvö glös og skreytið jafnvel með þeyttum rjóma og hnetukurli.


Tuesday, March 28, 2017

Chili kakó


Flensan búin að segja til sín hjá mér.
Hósti, hæsi, hiti og beinverki. Þá er gott að fá sér eitthvað gott í hálsinn.
Ég er mjög hrifin af þessu chili kakói.
Jú kannski jólalegt en alveg leyfilegt allan ársins hring. 




250ml möndlumjólk
200ml rjómi
1tsk vanillu extract eða dropar
50g sukrin
3msk ósykrað kakó
1/2tsk kanill
1/2tsk chiliduft

Möndlumjólk, rjómi og vanilla er sett í pott og hitað upp í suðu.
Á meðan er þurrefnunum blandað saman í litla skál.
Setjið þau út í þegar suðan er komin upp og hrærið vel í þar til
allt hefur blandast saman.

Hellið í tvö glös/bolla og setjið þeyttan rjóma yfir ef óskað.

Friday, March 24, 2017

Jarðarberja ostakaka með hentusmjörsbotni.


Í vikunni er mikið búið að vera að ræða uppskriftir og þar á meðal um bleika ostaköku, semsagt jarðarberja ostaköku.
Fékk því löngun að útbúa eina og bjóða samstarfsfólkinu.

Það kann að hljóma skringilega að vera með hnetusmjörsbotn við jarðarberjaköku.
Ástæðan fyrir að þessi botn var valin er einfaldlega sú að ég útbjó hnetusmjörskökur sem misheppnuðust aðeins og ég vildi ekki henda þeim.
Svo ég muldi þær betur niður og ákvað svo að þær væru fullkomnar í botn á köku.

Ótrúlegt en satt þá kom það bara vel út að hafa jarðarber og hnetusmjör saman.


Jarðarberja ostakaka


Botn:

60 g mjúkt smjör
2 msk  mjúkt hnetusmjör
30 g Sukrin Gold
3 msk Fibersirup Gold
80 g möndlumjöl

Blandið öllu nema smjöri vel saman. Smjör brætt og bætt við.
Þjappið niður í springform, 22-24cm að stærð.
Bakið á 180gráðum í ca 5-7 mínútur.

Kælið botninn áður en fylling er sett yfir.




Fylling:

200g rjómaostur
180g Grísk jógúrt
3dl frosin jarðarber 
(var með kúfað í dl málinu)
3dl þeyttur rjómi
2msk Sukrin Melis

Rjómaostur, grísk jógúrt og Sukrin Melis hrært vel saman.
Þegar jarðarberin voru aðeins farin að þiðna maukaði ég þau með töfrasprota og blandað svo við.
Í lokin er þeyttur rjómi blandaður varlega við.
Setjið fyllingu yfir botninn og setjið svo kökuna í frystinn í ca 3klt.




Tuesday, March 21, 2017

Fljótlegt hveitilaust brauð!


Sá þessa uppskrift á facebook á LKL síðunni fyrir örugglega tveimur árum og alltaf ætlað að prófa hana en Andrea Rafnar var sú sem póstaði uppskriftinni.
Poppaði hugmyndin aftur upp í hausinn á mér og varð að prófa.
Vildi óska að ég hafði prófað fyrr því þetta var ótrúlega auðvelt og gott!



40g Funksjonell möndlumjöl (verður að vera þessi tegund)
1 egg
1/2tsk lyftiduft
smá salt
krydd eftir smekk. Ítalskt, kúmen eða annað.

Blanda öllu saman og setjið í form sem er á stærð við eina brauðsneið.
Ég notaði box úr IKEA sem ég átti og var á stærð við brauðsneið.
Setjið inn í örbylgju í 90 sek.
Kljúfið í tvennt svo úr verði 2 brauðsneiðar
Ristið og njótið ;)



Thursday, March 16, 2017

Hnetusmjörs ostakaka


Elsti sonur minn spyr alltaf þegar hann kemur til okkar hvort hann megi ekki útbúa hentusmjörskökur. Ein af fyrstu sykurlausu uppskriftunum sem ég útbjó og ein sú mest gerða.
Síðustu helgi langaði mig að prófa að útbúa hnetusmjörsostaköku fyrir þá sem dá hnetusmjör allra mest. Ef þú fílar ekki hnetusmjör, þá er þetta ekki kaka fyrir þig ;)





Botn


180g kókosmjöl
2msk kókoshveiti
1 egg
100g kasjúhnetur
60ml kókosolía sem búið er að bræða
2msk Sukrin Gold
1msk vanillu extract eða dropar

Allt hráefni nema egg sett í matvinnsluvél og blandað vel saman.
Egg bætt við.
Smyrjið springform með kókosolíu og þjappið deiginu um botninn.
Ef þið viljið stóra köku og þynnri notið 24-26cm form en ef þið viljið botn sem nær upp með hliðunum og er þykkari, notið 20cm springform.

Bakið í ofni sem er 160g heitur í 20 mínútur fyrir þykkari botninn en bökunartími á þynnri botni myndi ég byrja með 15 mín og baka þar til gylltur.


Fylling


 250g rjómaostur stofuhita
250g þeyttur rjómi
2 góðar matskeiðar af hnetusmjöri
150g Sukrin Melis
1msk vanillu extract eða dropar

Hrærið rjómaost, vanillu og Sukrin Melis vel saman í skál.
Því næst fer hnetusmjörið í blönduna.
Í lokin er það þeytti rjóminn og blandið vel.

Setjið yfir botninn þegar hann er orðin kaldur.
Mér finnst gott að setja ostakökurnar mínar í frysti í klt og svo í kælinn.

Skreytið með þeyttum rjóma og svo skar ég niður próteinstöng sem ég keypti í Bónus og setti yfir rjómann.




Wednesday, March 15, 2017

Mjúk karamella

Þegar ég var barn fannst mér ekkert eins gott en þegar mamma útbjó heimagerða karamellu.
Mjúk karamella sem maður borðaði beint úr skálinni með skeið og helst að hafa ískalda mjólk með.
Karamelluna lærði mamma að gera hjá sinni mömmu og að sjálfsögðu hélt ég áfram að útbúa hana á tyllidögum þegar ég flutti að heiman.

Versta við þá karamellu er sú staðreynd að hún er útbúin úr sykri, miklum sykri.
Ég hef mikið saknað þess að fá mér karamellu yfir sjónvarpinu á kvöldin þegar þannig liggur á mér.

Mjúk karamella

150ml rjómi
3msk Fibersirup Gold
2msk ósykrað kakó
ögn af salti


Setjið rjóma, Fibersirup Gold og kakó í pott og látið koma upp suðu. 
Látið malla og hrærið reglulega í þar til karamellan er búin að sjóða niður og farin að þykkjast.
Bætið við smá salti.

Setjið í skál og látið kólna

Frábært þegar maður vill eitthvað sætt yfir sjónvarpinu.
Karamellan hentar einnig vel með öðrum uppskriftum.





Friday, March 10, 2017

Karamellu ostakaka Dísu

þessa uppskrift krotaði ég niður á blað í kaffinu í vinnunni um daginn og bíð eftir að hafa tækifæri til að endurgera hana ;)


Karamellu ostakaka Dísu

Botn
60 g smjör
170 g pekanhnetur
1 msk sukrin gold (púðursykur ef þið eruð ekki að forðast sykur)
3 msk kókosmjöl
1 tsk kanil

Setjið hneturnar í matvinnsluvél og vinnið þær í mjöl. Einnig er hægt að hafa botninn grófari og setja hneturnar í poka og berja aðeins með kökukefli.  Var sjálf með grófhakkaðar hnetur í botninum.
Setjið smjör í pott og bræðið.
Bætið við hráefninu ofan í og blandið vel saman. Notið 20 cm springform eða silikonform og setjið botninn í. Ég notaði silikonform og setti botninn í frystinn í korter og tók hann svo úr forminu, setti álpappír ofan í formið og upp með hliðunum og botninn svo ofan á. Þetta gerði ég svo auðveldara yrði að fjarlæga kökuna þegar hún væri tilbúin.

Karamella
250 ml rjómi
5 msk Fibersirup Gold (sykurlaust síróp sem fæst í flestum verslunum) 
Setjið í hæfilega stóran pott og fáið suðuna upp. Lækkið undir hitanum og látið malla þar til karamellan fer að þykkjast. Tekur um 15-20 mínútur

Fylling
250 g rjómaostur 
80 g sukrin melis (flórsykur ef þið eruð ekki að forðast sykur)
1 tsk vanilla extract eða vanilludropar
3 dl þeyttur rjómi
100 g af karamellu (karamellan þarf að vera búin að kólna áður en sett út í)

Þeytið rjómann og setjið til hliðar.
Rjómaostur, sukrin melis, karamella og vanilla extract þeytt vel saman og í lokin er rjóminn varlega blandaður við.
Setjið yfir botninn.
Setjið restina af karamellunni yfir kökuna ásamt pekanhnetum og síðan inn í ísskáp.
Takið kökuna varlega úr forminu og setjið á kökudisk.
Njótið.
 

Wednesday, March 8, 2017

Kjúklingasúpa Sigurgeirs


Þegar sonur minn kemur á mömmuhelgum suður þá er ýmislegt sem hann vill fá.
T.d. eru hentusmjörskökurnar mínar eitthvað sem hann vill baka í hvert sinn sem hann kemur og það nýjasta er að hann vill fá kjúklingasúpu.


Svo hér er ég með uppskrift sem ég setti saman með því sem til var í ísskápnum



Kjúklingasúpa Sigurgeirs


1 laukur
1 rauðlaukur
1 rauð paprika
2 hvítlauksgeirar
2 dósir af tómötum
1 msk karrý
1 kjúklingateningur
3 kjúklingabringur
1msk Tabasco sósa
150g rjómaostur
pipar og oregano eftir smekk
rifin ostur og sýrður rjómi eftir smekk

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu með íslensku smjöri. Kryddið með salt og pipar ásamt chilikryddi eftir smekk.

Skerið laukinn, paprikuna og hvítlaukinn niður í bita og steikið í potti með olíu og karrý þar til laukurinn er orðin gylltur og mjúkur.
Bætið við tómötum í dós ofan í.
Látið vatn í tómu dósirnar til að skola þær og hellið vatninu í pottinn og bætið við kjúklingateningi og tabasco sósunni. Kryddið eftir smekk með pipar og oregano.
Látið malla í 10 mínútur.

Þar sem á mínu heimili er ekki vilji til að borða súpur með grænmetisbitum, þá mauka ég súpuna niður.

Því næst bæti ég við rjómaostinum og kjúklingnum.

Berið fram í skálar og hver og einn bætir við rifnum osti og sýrður rjóma eftir smekk í sína skál.

Tuesday, March 7, 2017

Pizzurúlla


Eftir langt hlé frá því að útbúa uppskriftir og baka og elda nýja rétti er ég að detta í gírinn.
Síðustu vikur er ég búin að vera jafna mig eftir aðgerð sem ég fór í og er ég fyrst núna að fá orku til að geta gert eitthvað. 
Samt sem áður þarf ég að passa mig. Ef ég þarf að útrétta eitthvað þá þýðir það að ég hef ekki orku í það að taka til, þrífa eða baka og verð því að forgangsraða eftir dögum hvað ég vil gera.

Þessa uppskrift prófaði ég að gera í gær.
Skemmtilegast við hana er hversu auðvelt er að breyta innihaldi rúllunnar eftir því hvað maður á í ísskápnum :)





Pizzurúlla


4 egg
130g rjómaostur (stofuhita)
1msk Husk
1tsk vínsteinslyftiduft (eða venjulegt)
1msk pizzukrydd


Aðskiljið eggjahvítur og rauður.
Stífþeytið hvítur og setið til hliðar.
Rauður og rjómaostur þeytt vel saman.
Bætið við huski, lyftidufti og pizzukryddi og blandið vel saman.
Í lokin eru hvíturnar bættar við og blandað varlega en vel saman.

Dreifið á smjörpappír svo fyllir næstum allt.
Bakið í ca 10 mínútur á 180g og takið úr ofninum.
Setjið pizzusósu (ég nota sykurlausa frá Hunt's) og dreifið yfir.
Setjið álegg sem þið viljið og svo rifin ost.
Rúllið deiginu upp og setjið aftur inn í ofn.
Stillið ofnin á 200g og bakið í 12-15 mínútur.