Sunday, August 25, 2013

Blómkálspizzubotn og heimagerð pizzusósa

Ágúst að klárast. Börnin byrjuð í skólanum og leikskóla og ég farin að vinna. Það er alltaf gott að fá smá rútínu eftir sumarfrí. Hvað þá þegar sumarfríið fór að hluta til að gera upp og mála íbúðina.  Ég er pínu skrítin að alltaf í lok ágúst er ég farin að hlakka til jóla. Það er orðið dimmt á kvöldin og hægt að kveikja á kertum og hafa kósý og einhvern vegin minnir það mig á jólin. Og ég fór að hugsa....jól og sörur. Jól og lkl sörur, svo núna er ég á fullu að vinna í því að gera skothelda söru uppskrift fyrir jólin. Það er ekki eins auðvelt og ég hélt en þetta fikrast áfram og verður vonandi tilbúið fyrir jól.
Svona ein af afrakstri sumarsins ;)

En ég ætlaði nú ekki að tala meira um jólin (120 dagar!) og fara í pizzuna. Ég hef aldrei verið fyrir blómkál en fór einhvern vegin að elska það. Elska að búa til blómkálspoppið og ákvað að prófa að gera pizzubotn úr blómkáli. Hljómar ekkert sérlega vel en trúið mér, það er gott! 

Pizzubotn


1 Blómkálshaus (ekki of stóran)
1 egg
2 dl rifin ostur
1 tsk hvítlaukssalt
2 msk möndlumjöl (valfrjálst, ég sleppi)

Byrja á því að skola vel af blómkálinu og láta þorna. Því næst er að skera blómkálið niður í litla bita og sleppa stilkinum alveg. Setja í matvinnsluvél þar til að það verður eins og hrísgrjón.


Næst er að setja hrísgrjónin í pott með smá vatni og láta sjóða í nokkrar mín. Þetta hjálpar til með að losa vökva úr blómkálinu.
 Því næst er að sigta frá vatnið og leyfa grjónunum að kólna.


Þegar grjónin hafa fengið að kólna eru þau sett í viskustykki og þá er að vinda vel og vandlega allan vökva úr grjónunum.




Þegar búið er að vinda eiga grjónin að líta svona út, eins og lítil deigkúla.

Hráefnum er blandað saman í skál og best er að nota hendurnar.
Bökunarpappír er svo spreyjað með Pam spreyi eða olíu til að passa að botninn festist ekki við og auðvelda að losa frá eftir eldun.


Nota hendurnar til að mynda pizzuna. Deigið á að vera blautt í sér. Passa þarf samt að pizzan má ekki vera of þunn. 

Setja botninn í 180 gr heitann ofn og bakað í 10-20 mín eða til gullinbrúnt. Gott er að hafa ofnplötuna í ofninum þegar hann er að hitna.


Nú er að setja sósu og álegg á pizzuna og aftur inn í ofn þar til osturinn er bráðnaður. Gott ráð er að setja ekki of mikla sósu þar sem blómkálið á það til að sjúga í sig vökva og því gætu dagnn eftir pizza verið dálítið blaut.





PIZZUSÓSA

Gerir um 450 ml.

1 1/2 tsk olía
1/2 eða lítill laukur saxaður
3-4 hvítlauksgerirar
1 dós af tómötum
1/2 tsk sukrin eða sukrin gold
2 tsk oregano
2 tsk basil
1 tsk hvítlaukssalt
2 tsk pizzukrydd.

Hita olíu á pönu á meðal hita. Bæta lauk og elda til hann er mjúkur. Hvítlaukur bættur við og eldað í 2 mín. Því næst er það tómatarnir og kryddið. Þegar sósan byrjar að malla hitann og leyfa að malla í ca 15 mín. Mauka svo með töfrasprota. 

Sósan er heldur bragðlítil fannst mér þegar ég gerði hana fyrst og því setti ég hér fyrir ofan meir af kryddum. Hún er líka aðeins bragðminni þegar hún er heit og kom meira bragð á hana þegar hún kólnaði. Annars er bara að smakka sig til og byrja kannski með helmingi minna af kryddum og frekar þá bæta við. Ég vil  hafa mína pizzasósu bragðmikla ;)

En endilega fylgist með hér inná því fljótlega kemur söru uppskriftin inn! Það er hægt að skrá sig á póstlista og fá eimail þegar ég set nýjar uppskriftir inn ef áhugi er fyrir því :)


Sunday, August 18, 2013

Grillaður Camenbert með sesam kexi og lauk sultu

Við systurnar erum miklir matgæðingar og þegar við hittumst er undantekning að við fáum okkur eitthvað gott í gogginn. Ég sá um daginn á N4 matreiðsluþátt þar sem grillaður var Camenbert og varð að prófa. Ljúffengt!! Ég ákvað að ég yrði að prófa aftur og bjóða systur minni að koma og smakka og ákvað að láta verða að því að búa til lauk og hvítlaukssultu.



Sesam kex



130 g möndlumjöl
35g sesamfræ
60g rifin ostur
50g rifin parmesan
1 eggjahvíta
2 tsk disjon sinnep
1 tsk hvítlaukssalt
1 tsk salt

Allt blandað vel saman þar til verður að einni deigkúlu. Nota hendurnar til að búa til litlar kúlur sem þú þrýstir svo vel niður á bökunarpappír. Ég notaði svo spaða til að taka þær af pappírnum og snúa þeim við svo þær myndu ekki festast við bökunarpappírinn. Bakað í ofninum á 180 gráður í ca 8-10 mín eða þar til gullinnbrúnar. Passa að fylgjast með því fyrsti skammturinn minn var aðeins of lengi og brann.

Hvítlauks lauksulta


Ég varð að prófa að búa til einhverja sultu og ég elska lauk og hvítlauk og afhverju ekki að prófa sig áfram með sultu? Heppnaðist mjög vel í fyrstu tilraun og verður notuð áfram með ostum eða bara beint á kexið :)

1 heill hvítlaukur
olía
salt og pipar
1 laukur
3 msk þurrt hvítvín
2 msk rjómi
1 tsk sukrin gold

Skorið er ofan af heilum hvítlauk og hann settur á álpappír. Sett smá olía yfir ásamt salt og pipar eftir smekk.
Sett í 190 g heitann ofn í ca klt eða þar til hann er orðin vel mjúkur. Látin kólna. Kreysta hvítlaukinn úr og maukað á disk með gaffli.

Laukur skorin niður og steiktur á pönnu með smá kókosolíu og smjöri. Þegar laukurinn er orðin brúnn er hvítlauki bætt út í ásamt hvítvíni, rjóma og sukrin gold. Látið malla í nokkrar mínútur áfram. Saltað og piprað eftir smekk.


Grillaður Camenbert.



Camenbert settur á álpappír. Olía, sítrónusafi, rósmarín og smá rifin engifer sett yfir ostinn. Grillaður í nokkrar mínútur þar til hann er farin að bráðna smá. Þegar búið er að taka hann af grillinnu er líka gott að bæta við bacon við ostinn.

Einnig er gott að grilla Camenbert með því að stinga hvítlauk í ostin ásamt rósmarín.

Wednesday, August 14, 2013

LKL vörur

Ákvað að setja inn smá upplýsingar um lkl vörur fyrir þá sem eru byrjendur og vita ekki hvernig vörurnar líta út. Listinn er ekki tæmandi og endilega látið mig vita ef það er fl sem þið viljið fá á hann.


Sukrin. Er í grunninn erythiol sem er náttúruleg sæta og hefur ekki áhrif á blóðsykurinn. 0 kaloríur og 0 kolvetni. Sukrin kemur í stað venjulegs sykurs í matargerð og bakstri. Allar sukrin vörurnar fast í Krónunni.


Sukrin Melis er flórsykur. Er 0 í kaloríur og 0 kolvetni.

                              
                        

Sukrin Gold er púðursykur. Ein tsk (5 g) innihalda 1 kaloríu og í 100g eru 2,9 g af kolvetnum.

           

                             
              
Sukrin + er helmingi sætara en venjulegur sykur. Er fyrir þá sem vilja mikið sætubragð eða nota helmingi minna af sætu í bakstur eða matargerð.




Eryhtiol frá Now. Er mun dýrara en sukrin en sama vara í grunninn.




Möndlumjöl. Ómissandi finnst mér þegar kemur að bakstri. Er í rauninni hakkaðar möndlur ekkert annað og vel hægt að gera það sjálfur. H-Berg er með fínt möndlumjöl í Bónus sem er á hagstæðu verði.



Stevia er náttúruleg sætuefni sem er hægt bæði að fá í dufti og vökva. Notað til að bragðbæta skyr, kaffi og í bakstri. Gefur extra boost í bragðið. Kemur í fjölmörgum bragðtegundum. Via-Health Stevíu droparnir fást í Nettó, Samkaup, Hagkaup, Krónunni og Fjarðakaup.

                                                                                          

                                

Xanthan Gum er þykkingar efni sem er hægt að nota í baktur og í soðsósur ef ekki er ætlað að þykkja með osti.




Kókoshveiti er í raun staðgengill fyrir venjulegt hveiti ásamt möndlumjölinu. Þarf mun minna af því og ef þú ert að breyta uppskrift úr venjulegu hveiti eða möndlumjöli yfir í kókoshveiti skaltu skoða myndina fyrir neðan



Kókosolían góða er algjört must. Ég byrja daginn á góðu glasi af vatni og tsk af kókosolíu. Hún er góð til steikingar líka, á húðina, hárið name it, hún er góð.

  


Husk eru náttúrulegar trefjar og er mikið notað í bakstri. Sýgur í sig vökva og þykkir deig, ef þú ert að fara baka með huski þá er mjög gott að láta deigið standa í smá stund áður en það er eldað svo huskið nái að draga vel í sig vökva. Gott fyrir meltinguna. Þeir sem eru ekki að baka geta tekið husk inn með því að setja samkvæmt upplýsingum á vöru í vatnsglas. Það getur nefnilega gerst að einstaklingar fá hægðatregðu á þessu mataræði og þá getur huskið hjálpað til. Ekki reyna að nota husk í sósugerð. Virkar ekki, hef prófað ;)




Hef ekki sjálf notað þessa vöru, á alveg eftir að prófa hana en hún er að virka vel í brauðgerð. María Krista er búin að gera nokkrar góðar útfærslur á brauði með flax seed sem þið getið skoðað á síðu hennar, http://mariakristahreidarsdottir.blogspot.com/  Á þeirri síðu er líka fullt af fróðleik um lkl sem gott er að skoða. Sumir tala um lýsisbragð af þessari vöru.


Xylitol er sætuefni notað í stað sykurs. ég persónulega nota ekki xylitol en margir gera það. Maður þarf bara að finna það sem hentar hverjum og einum.



Tuesday, August 13, 2013

Kókoskúlur


Stundum þá langar manni í eitthvað sætt og ljúfengt sem tekur ekki langan tíma að gera. Skoðaði nokkrar uppskriftir og setti þessa saman :-)
Kókoskúlur 8-14 stk eftir stærð





100 g mjúkt smjör
70g möndlumjöl
30g kókosmjöl (og meira til að skreyta)
3 msk kakó
1 msk vanilludropar eða rommdropar
2-4 msk sukrin melis (eftir því hversu sætt þú vilt)


Hráefnum blandað saman í skál. Búið eru til kúlur og rúllað upp úr kókosmjöli.
Sett á disk og inn í ísskáp í klt. Geymist í kæli. 
Reiknast að í allri uppskriftinni er undir 10g net carbs :)



Friday, August 9, 2013

Kladdkaka með þeyttum rjóma

Þú finnur varla neitt sem er meira sænskt en kladdköku. Kladdkaka er súkkulaði kaka sem er ekki alveg bökuð, mjúk og æðisleg með rjóma :) Ég bjó sem krakki í Svíþjóð og er með sterk tengsl þangað og því er stundum sett í eina kladdköku. Dagurinn í dag var því tilvalin fyrir eina kökugerð. Húsbóndinn stakk enn eina ferðina af til Grænlands og börnin því pínu leið, en góð súkkulaði kaka getur dreyft huganum og glatt þau í smá stund :) Þessi er LKL væn, algjör súkkulaðibomba og bragðgóð. Eins og með flest LKL bakkelsi þá er ein sneið meira en nóg. Best er að borða þessa kalda með þeyttum rjóma og jafnvel fá sér nokkur jarðaber með. Gott er að gera þessa deginum fyrr því hún er enn betri næsta dag :-)





Kladdkaka

100 g smjör
100 g súkkúlaði (70% eða yfir)
2 egg
1 dl rjómi
3 msk sukrin
1 msk sukrin melis
1-2 msk kakó
1 tsk vanilludropar

Smjör og súkkulaði er sett í pott og brætt. Rjóma bætt við og blandað vel. Egg og sykur þeytt vel saman og blandað svo við súkkulaðið. Vanilludropar bætt við. Í restina er kakó bætt við. Best að smakka hversu mikið maður vill. Ef súkkulaðibragðið er of ramt (fer eftir hversu mörg % súkkulaðið er) er hægt að bæta örlítið af rjóma við eða smá sukrin.

Ofnin stilltur á 225g og kakan bökuð í 6-10 mín. Hún á að vera blaut í miðjunni. Best að leyfa kökunni að kólna því hún er betri köld. 



Wednesday, August 7, 2013

Coq au Riseling

Ekki kannski alveg svona miðvikudagsréttur, frekar föstudags eða laugardags en í kvöld var síðasti kvöldmatur fjölskyldunnar saman í bili þar sem húsbóndinn heldur á leið ævintýra á Grænlandi eina ferðina enn á morgunn. Því ákvað ég að gera eitthvað gúmelaði og sötra smá hvítvín með.

Ég elska að renna í gegnum pinterest og skoða uppskriftir og ég fann þessa fyrir nokkru þar og búin að bíða eftir tækifærinu til að prófa hana. Kemur af blogginu simplydelicious.co.za



8 kjúklingabitar (ég var með heilan kjúkling sem ég úrbeinaði niður í bita)
50 g smjör
2 msk olía
1 stór laukur
100 g bacon (ég átti hann ekki til)
4-6 hvítlauksgeirar
ein askja af sveppum
500 ml Riesling hvítvin eða annað þurrt vín
250 ml rjómi
salt og pipar eftir smekk
fersk steinselja

Smjör og olía hitað á stórri pönnu.

Kjúklingur brúnaður á pönnu. Taka hann af og geyma á disk

Saxaður laukur og bacon er sett á pönnuna þar til laukurinn er mjúkur. Hvítlaukur bætt við og hrært í ca 30 sek og svo er allt sett í skál. Geyma fituna á pönnunni

Krydda kjúklingin með salt og pipar og setja á pönnu. Skinnið snúið niður. Brúna kjúkling vel og bæta svo sveppi við og leyft að malla í 5 mín.

Laukur og bacon er bætt við í pönnuna.

Bæta hvítvínið við og leyfa að koma upp í suðu. Lækka hitann og setja lok á pönnuna. Láta malla í 15 mínútur

Hækka aftur á hitanum og bæta rjóma við. Látið malla í 5 mínútur í viðbót.

Í lokin er bætt við saxaðri steinselju.

Ég var með þessu Sæunnarbrauð. Uppskrift sem ég fann á lkl síðu á facebook.
Þegar ég var búin að baka brauðið skar ég það í tígla að ofan, fyllti svo með piparosti og dreyfði yfir það bráðnuðu hvítlaukssmjöri. Setti á álpappír og aftur í ofnin þar til osturinn var bráðnaður.



Monday, August 5, 2013

Steiktur fiskur með tómathjúp


Ég setti inn uppskrift um daginn af mozzarella kjötbollum og með þessum kjötbollum var sósa. Bollurnar voru borðaðar daginn eftir en sósan kláraðist ekki og mér finnst ekkert skemmtilegra en að ná að útbúa eitthvað úr afgöngum, þó það sé bara sósa. Svo það var ekkert annað en að sulla saman góðum fiskrétt. 



2 flök af ýsu eða þorski
2 egg
2-3 msk af afgangssósu eða tómatpaste
2 msk disjon sinnep
1 tsk paprikuduft
1 dl rifin parmesan
salt og pipar eftir smekk
kókoshveiti með smá hvílaukssalti


Kókoshveiti sett í skál ásamt hvítlaukssalti




Í aðra skál er eggi, sósu, sinnepi, kryddi og osti blandað vel saman.
Fiskur skorin í hæfilega bita, hvert flak í tvo-þrjá bita. 
Setja fiskibita í kókoshveiti og síðan í sósublönduna.





Hita pönnu og steikja fiskinn með smjöri eða kókosolíu, nokkrar mínútur á hvorri hlið.

Smakkast mjög vel með blómkálspoppi, fetaosti, klettasalati og sitrónubita. Ég var ekki með sósu í þetta sinn en er örugglega gott að gera kalda sósu úr sýrðum rjóma, majonesi, hvítlauk og sítrónusafa :)

Saturday, August 3, 2013

Súkkulaði skál með þeyttum rjóma og berjum.

Núna á næstu mínútum er síðan mín að detta í heimsókn nr 15000! Það eru fimm vikur síðan ég byrjaði með bloggið og ótrúlega gaman að sjá hve margir koma hér inn og skoða :)

Um daginn var 45 ára brúðkaupsafmæli hjá tengdaforeldrum mínum og var haldið smá matarboð í því tilefni hér heima hjá okkur hjónunum. Ég ákvað að gera eftirrétt sem er var fallegur og með einföldum hráefnum og hvað er einfaldara en súkkulaði, rjómi og ber? Ég var búin að sjá á youtube að hægt væri að gera súkkulaði skálar með að nota blöðrur svo ég og dóttir mín fórum í smá dúllerí í eldhúsinu.








Skref eitt er að finna sér lítinn aðstoðarmann sem getur passað allar blöðrurnar :)

Blása blöðrurnar í þá stærð sem hentar. Stór blaðra = stór skál  Var með 
mínar nokkuð litlar.

Bræða súkkulaði í vatnsbaði. Ég notaði Green & Black (þetta er gömul mynd)


Taka blöðru og dýfa henni ofan í skálina eins langt og þú vild að skálin verði djúp.
Ráð: Notið helst glæra skál því það þarf að dýfa blöðrunum tvisvar sinnum og það er auðveldara
að sjá hve langt þú fórst síðast með blöðruna ef þú ert með glæra skál.


Raða blöðrunum á bökunarpappír og látið inn í ísskáp í 15 mínútur.

Dýfið aftur í súkkulaði og setið aftur inn í ísskáp í 15-20 mínútur.
Næst er að losa skálina frá blöðrunni. Stingið gat efst á blöðruna með nál eða títuprjón og leyfið loftinu rólega að fara úr blöðrunni. Þetta tekur smá þolinmæðisvinnu og það gæti þurft að toga blöðruna rólega úr skálinni. Alls ekki erfitt en það þarf að vanda sig. Ef blaðran losnar ekki auðveldlega frá er spurning hvort súkkulaðið sé ekki nógu vel harðnað og þurfi að vera nokkrar mínútur lengur í ísskápnum.

Síðasta skrefið er að þeyta rjóma og setja í skálarnar og skreyta með berjum.

Þetta slóg í gegn og var borðað með bestu lyst. Hver elskar ekki súkkulaði og rjóma? Jújú ég þekki nokkra en flestir gætu hugsað sér að fá eina svona skál :)