Tuesday, January 30, 2018

Glúten og hveitilausar vatnsdeigsbollur

Það er ansi langt síðan ég bakaði vatnsdeigsbollur og ákvað ég að skella í einn skammt í kvöld.
Börnin voru virkilega ánægð. Voru ekki alveg sátt við bollurnar beint úr ofninum. Bað þau að hafa smá þolinmæði enda eftir að setja súkkulaði og rjómann svo á milli. 
Það kom dáldið annað hljóð í þau þegar smakkað var aftur. Þau eru bæði búin að panta þessar bollur með sér í skólann á bolludaginn.



125 g smjör
250 ml vatn
40 g kókoshveiti
 3 stór stór egg
1 tsk xhantan gum


Smjör og vatn sett í pott og brætt. Kókoshveiti bætt í pottinn og hrært vel saman. Xhantan gum bætt út í og blandað við. Sett í skál og látið kólna. Bæta við eggjum, eitt í einu og hræra vel saman við deigið. 

Nota skeið til að setja deig á bökunarplötu með bökunarpappír á. Bakað með blæstri á 180 gráður í ca 30-35 mínútur.

Þær gætu verið smá blautar að innan. Mér finnst það gott en það er vel hægt að skafa aðeins úr þeim :)

Ég bræði sykurlaust súkkulaði og set ofan á bollurnar.
Á milli var ég með þeyttan rjóma með vanillufræjum í. Ef maður vill hafa rjómann aðeins sætan er hægt að setja smá Sukrin Melis með vanillunni :)

Einnig er sykurlausar jarðarberja og bláberjasulturnar mínar vinsælar og koma vel út á bollunum. Og ef maður vill virkilega gera vel við sig þá er súkkulaðiheslihnetusmjör algjört dúntur ofan á eða á milli :)





Thursday, January 18, 2018

Ostakaka með hindberjasósu


Tengdó kíkti í kaffi til okkar óvænt um daginn. Langaði að bjóða upp á eitthvað gott með kaffinu og úr var þessi uppskrift. Hún er ótrúlega auðveld og fljótlega að útbúa :)




250g rjómaostur hreinn
1,5dl rjómi
3msk Sukrin Melis
1 vanillustöng



Þeytið rjómaost, Sukrin Melis og vanillufræ vel saman.
Bætið við rjómanum (óþeyttum) og þeytið þar til blandan er orðin þykk.

Setjið í 4 glös og geymið í kæli.


Hindberjasósa.

130g frosin hindber
1msk vatn


Setjið hindberin ásamt vatni í pott og látið sjóða. Maukið með gaffli berin niður. Börnunum mínum finnst mjög gott að fá sósuna ósætaða en fyrir suma þarf kannski að setja 1msk Sukrin Melis til að draga úr súra bragðinu.

Dreifið yfir ostakökuna og skreytið með nokkrum heilum hindberjum.





Wednesday, January 17, 2018

Sætkartöflubrauð með pekanhnetum


Það hljómar kannski mjög skringilega að baka brauð úr sætum kartöflum, hvað þá köku en það eru ótal uppskriftir að finna á netinu þar sem sætar eru aðal hráefnið.
Amerikanar eru sérstaklega duglegir að baka með sætum.
Ég skoðaði fullt af uppskriftum og setti þessa saman og kom hún bara skemmtilega á óvart.

Ég eiginlega býð spennt eftir að prófa að gera súkkulaðiköku með sætum.




300g sætar kartöflur
4 egg
120ml rjómi
60ml Fibersirup Gold
1tsk vínsteinslyftiduft eða venjulegt
1/2tsk engiferkrydd
1tsk kanil
1/2 bolli kókoshveiti. Ég nota frá Funksjonell
1tsk vanillu extract eða dropar
1msk olía
100g pekanhnetur

Skerið sætu kartöflurnar í litla teninga og setjið í skál ásamt 1/2tsk af kanil og olíu og blandið vel saman.
Dreifið úr á bökunarplötu og bakið við 170 gráður í 30 mínútur.
Setjið helminginn af pekanhnetunum í matvinnsluvél og malið vel niður.
Bætið við sætu kartölfurnar og blandið vel.
Bætið við þurrefnunum.
Í lokin eru egg, rjómi, vanillu extract og Fibersirup Gold bætt við.

Setjið í brauðform. Mér finnst best að nota silikonbrauðform því þá er ekki hætta á að brauðið festist við formið. Ef þið eruð með silikonform, þarf að smyrja formið með smjöri eða olíu.
Grófsaxið afgangin af hentunum og stráið yfir brauðið.
Bakið í 50-60 mínútur eða þangað til tannstöngull eða gaffall kemur hreinn úr brauðinu ef stungið er í það.

.


Sunday, January 14, 2018

Ostakaka með heslihnetum


Um helgina hefur heilinn minn verið að láta ýmsar hugmyndir poppa upp í hugann á mér og þegar það gerist svona sterkt þá er ekkert annað en að koma hugmyndinni á blað og framkvæma hana.

Þessi uppskrift datt í kollinn á mér fyrr í dag. Ég eiginlega varð ekki róleg fyrr en ég var búin að hoppa út í búð og kaupa rjóma og heslihnetur og byrjuð að baka.

Hún heppnaðist bara nokkuð vel þó ég segi sjálf frá og er virkilega einföld að útbúa.

Varðandi súkkulaðismjörið þá er ég með uppskrift af heimagerðu sykurlausu hér, en ég ákvað að prófa að kaupa tilbúið í þetta sinn. Eina vandamálið með búðarkeypt er að þó að það sé sykurlaust eru sætur sem eru kannski ekki þær bestu en mér finnst allt í lagi að nota svona einstaka sinnum ;)






Botn
50g smjör
100g möndlumjöl
40g hakkaðar heslihnetur
(má líka sleppa heslihnetum og hafa bara möndlumjöl)
1-2 msk Sukrin eða Sukrin Gold
1msk ósykrað kakó

Hrærið þurrefnum vel saman.
Bræðið smjör í potti og bætið svo þurrefnum við og blandið vel.

Þjappið í 20cm spring eða silikonform og bakið á 180 gráðum í 6-8 mín.


Fylling
300g rjómaostur
2,5dl rjómi
1/2 stöng af vanillufræjum
30g Sukrin Melis
40g hakkaðar heslihnetur


Hrærðið rjómaosti, vanillufræ og Sukrin Melis vel saman í hrærivél.
Bætið við rjóma (óþeyttan) og hrærið þar til þykkt og vel blandað.
Setjið hnetur út í og blandið við.

Setjið yfir botninn og í frysti í ca. klt.
Ástæðan fyrir að ég set ostakökurnar mínar inn í frysti er sú að ég nota silikonform og ef þær eru smá frystar er auðveldara að fjarlæga þær úr forminu auk þess að smyrja kreminu á.
Smyrjið sykurlausu súkkulaðismjöri yfir og skreytið með heslihnetum.



Wednesday, January 10, 2018

Lime ostakaka


Nú styttist í helgina og á meðan ég hef legið heima veik skoða ég gamlar uppskriftir og læt mig dreyma um tíma sem ég var ekki veik og hafði lyst á ljúffengum eftirréttum ;)
Þessi uppskrift finnst mér æðisleg og börnin mín elska ostakökurnar mínar blessunin.
Það sem ég myndi vilja fá einn svona skammt þegar heilsan kemur aftur svo það er aldrei að vita nema ég skelli í þessa uppskrift um helgina.

Lime ostakaka

Fyrir 4-6

Botn:
2,5 dl möndlumjöl
20 g bráðið smjör
1 msk kanill

Fylling:
1,5 dl rjómi
100 g sýrður rjómi 
100 g rjómaostur 
1 lime
2,5 msk Sukrin Gold

Möndlumjöli, bræddu smjöri og kanil blandað saman og hitað í potti á vægum hita. Hrærið reglulega í og passið að brenna ekki.
Börkur af lime er rifinn niður og safi pressaður úr og blandað við.
Rjómi þeyttur.

Sýrður rjómi og rjómaostur þeyttur vel saman og svo blandað varlega við rjómann. 
Setjið í glös, botninn fyrst og svo ostakökuna. Skreytið með smá möndlubotni ofan á og rifnum lime berki.