Tuesday, May 29, 2018

Death by chocolate

Þessa köku gerði ég fyrir alnokkru síðan en þegar maður rekur eldhúsið sitt og já heimilið með nokkurskonar skipulögðu kaósi, þá geta uppskriftir týnst eða eins og ég segi að ég geymi hlutina bara á mjög góðum stað sem ég finn ekki í augnablikinu.

En uppskriftina fann ég í bók sem var ofan í skúffu svo þá er bara um að gera að skella henni á bloggið.

Ég vara ykkur við, þetta er bomba, súkkulaðibomba og maður getur ekki mikið af henni en hún er góð, virkilega góð. Ég útbjó tvo botna en það er vel hægt að hafa einn botn og krem yfir.

Mér finnst þessi eiga vel við núna, allavega hér í höfuðborginni. Það er allavega þungt yfir mér þegar ég hugsa um veðrið. Búin að vera í veikindafríi allan maí og gærdagurinn var fyrsti almennilega sumardagurinn og það bara eftir hádegi. 



Botn (einföld uppskrift)
100 g smjör
70g súkkúlaði (70% eða yfir)
2 egg
1 dl rjómi
2 msk sukrin melis
3-4 msk kakó
1 tsk vanilludropar

Smjör og súkkulaði er sett í pott og brætt. Rjóma bætt við og blandað vel. Egg og sukrin þeytt vel saman og blandað svo við súkkulaðið. Vanilludropar bætt við. Í restina er kakó bætt við. Best að smakka hversu mikið maður vill. Ef súkkulaðibragðið er of ramt (fer eftir hversu mörg % súkkulaðið er) er hægt að bæta örlítið af rjóma við eða smá sukrin.

Ofnin stilltur á 225g og kakan bökuð í 6-10 mín. Hún á að vera blaut í miðjunni. Látið botninn kólna.


Krem

110g smjör
100g rjómaostur
3msk kókos
2msk ósykrað kakó
2msk gott uppáhellt kaffi
4msk Sukrin Melis


Látið smjör og rjómaost ná stofuhita.
Þeytið smjörið vel í nokkrar mínútur og bætið við sukrin melis.
Bætið við rjómaosti og blandið vel saman.
Kaffi, kókos og kakó bætt við.

Smyrjið á neðri botninn.
Kremið er þykkt.
Setjið seinni botninn yfir og skreytið með þeyttum rjóma ef þið viljið