Tuesday, June 30, 2015

Hnetu og sítrónukökur

Það er búið að vera mikið fjör á heimilinu síðustu vikuna. Við erum að fóstra 3 litla kettlinga og mömmu þeirra. Kettlingarnir eru ca 4-5 vikna og bjuggu í Laugardalnum.
Það hefur gengið mjög vel með þá og eru þeir ótrúlegt krútt. Erum búin að nefna þau Mandla, Karl litli og Krummi. Batman okkar er svo farin að taka að sér pabba hlutverkið og passar upp á krílin ;)

Verst verður að gefa þá frá sér en vonandi fá þeir allir þrír gott heimili, þeir eiga það svo sannarlega skilið.


Strákarnir mínir eru búnir að vera duglegir að sjá um sig sjálfir í eldhúsinu, undir handleiðslu mömmunnar að sjálfsögðu. Kvöldmatur, hádegismatur og baksturs prófun hjá þeim. Þeim finnst mjög skemmtilegt að fá að prófa sig áfram í eldhúsinu og kunna að gera hlutina, hvort sem það er að steikja hamborgara eða búa sér til boost. Á meðan situr mamman við eldhúsið og leiðbeinir þeim ef þess þarf. Yfirleitt þessa daganna er ég með litabókina mína mér við hlið og lita. Það er eitthvað við það að lita sem róar mig niður. 


Í dag langaði strákunum að baka smákökur. Alexander vildi gera súkkulaðikökur en Sigurgeir langaði í sítrónukökur og bjó því til þessa uppskrift. Heppnaðist mjög vel hjá honum. Þetta eru nokkuð þurrar kökur sem eru gómsætar með kaffi eða kaldri mjólk ;)


Hnetu og sítrónukökur Sigurgeirs


3dl möndlumjöl
2msk hnetumjöl frá Funksjonell
1 egg
3msk Sukrin Gold
2msk rjómi eða kókosmjólk
börkur af 1 sítrónu
4 dropar sítrónu stevía  (má sleppa)
1tsk lyftiduft
1tsk vanilludropar
saxaðar salthnetur (má sleppa)

þurrefnum blandað saman og svo restinni. Blandað vel saman og gerðar litlar kúlur sem settar eru á bökunarpappír. Bakað í ofni í 8-10 mín á 175 gráður.



Wednesday, June 24, 2015

Súkkulaðikaka


Sá þessa uppskrift á Sukrin síðunni um daginn og varð að prófa. Ætlaði að baka hana um helgina en eins og svo margt þá varð ekkert úr því. 
Á morgun á minn yndislegi eiginmaður afmæli og verður fjarri okkur fjölskyldunni í vinnu á Grænlandi. Við krakkarnir ákváðum samt sem áður að halda upp á með stæl.
Kakan átti ekki að borðast fyrr en á morgun en það var mikið um tuð og læti svo ég ákvað að leyfa þeim að njóta hennar í sólinni :)

Þessi kaka er sjúklega góð. Algjör súkkulaðibomba!








Súkkulaði kaka

250g sykurlaust súkkulaði 
(ég notaði frá Valor)
250g smjör
4 egg
150g Sukrin Gold
4 dropar súkkulaði stevía
1msk vanillu extract eða dropar
2 tsk kaffi


Bræðið smjör og súkkulaði yfir vægum hita og hrærið þar til blandað saman.
Pískið eggin og bætið svo við Sukrin Gold og vanillu extract.

Bætið eggjunum við súkkulaðiblönduna og hrærið með sleif varlega saman.
Smyrjið 20 cm springform með olíu eða smjöri og setjið deigið í. 

Bakið í ofni sem er 175 gráður í 50-60 mínútur.

Ég reyndar klikkaði oggulítið og setti 300g af súkkulaði í mína en hún heppnaðist mjög vel. Var aðeins blaut í miðjunni en okkur finnst það ekkert verra.

Þeytti svo rjóma með toffee caramel stevíu og bar fram með ásamt jarðarberjum.







Sunday, June 14, 2015

Súkkulaðiskyrmús með lime


Ég bjó til þennan eftirrétt í vikunni. Ætlaði að gefa mér svo tíma til að setja inn á bloggið áður en það kom helgi en tíminn einhvern veginn hvarf frá mér. Í gær var svo yndislegt veður og ég ákvað að reyna safna nokkrum freknum framan í hvíta andlitið mitt. Það virkaði ágætlega. 
Núna sit ég út á svölum og læt sólina skína á mig á meðan ég skrifa þetta. Klukkan rétt orðin 10 og það er vel heitt hérna hjá mér. 

Eiginmaðurinn skellti sér eina ferðina enn til Grænlands og ætlar hann að vinna þar allavega næstu sex mánuðina. Maður er orðin svo sjóaður að hafa hann þar en auðvitað myndi ég miklu frekar vilja hafa hann hjá okkur. En svona er þetta og við gerum bara eins gott úr þessu og hægt er :)


Ég fékk sendingu af súkkulaði sem er nýtt á markaðinum hér heima. Var mjög spennt þegar ég sá facebook síðuna þeirra. Fagna í hvert sinn sem nýjar vörur koma hingað til lands sem hægt er að nota.
Sykurlaust, organic, glútenfrítt og gott. Gerist ekki betra :)




Ef þú elskar dökkt súkkulaði, átti eftir að elska þetta.  Bragðtegundirnar eru þó nokkrar og mintu og berja bragðið er tilvalið núna fyrir sumarið.


Skyrmús fyrir 6-8

500ml skyr (óhrært eða vanillu skyr.is)
2 pakkar af IQ súkkulaði lime bragð
3 egg
100g Sukrin 
4msk ósykrað kakó
5 dropar súkkulaði stevía
3 matarlímsblöð
2msk lime safi
Börkur utan af einni lime



Aðskiljið eggjahvítur og rauður og stífþeytið hvíturnar og setjið svo til hliðar.
Þeytið rauðurnar með sukrin og bætið svo skyrinu, kakói og stevíu við. 
Leggið matarlímsblöð í bleyti í ca 5 mínútur og setjið svo í pott ásamt lime safanum og hitið varlega þar til uppleyst. Látið kólna og blandið svo við búðinginn.
Í lokin eru eggjahvíturnar bætt út í ásamt berkinum og blandað varlega saman. 
Setjið í litlar skálar eða eina stóra og geymið í kæli í ca klukkutíma.

Ég var með órhært skyr en þeir sem vilja mildari bragð geta notað vanillu skyr.is



















Monday, June 1, 2015

Hnetusmjörsís



Síðustu sólahringa finnst mér eins og ég hafi losnað við mikla byrði af herðum mínum. Það var ótrúlega gott að skrifa og koma þessu niður á rafrænt blað. Ég er ótrúlega þakklát fyrir fallegar kveðjur sem ég hef fengi frá ykkur. Þær hafa hjálpað mikið.

 Ég hef verið með algjört verkstol þegar kom að blogginu. Ekki vantaði hugmyndirnar heldur bara að fá mig til að prufa mig áfra, mynda og skrifa. Ég fæ svona stundum en í morgun vaknaði ég og vildi ekkert annað en prófa mig áfram í eldhúsinu.


Hnetumjöl frá Funksjonell er nýtt á markaðinum hér á landi. Ég er búin að vera bíða spennt eftir að fá að prófa. Er búin að sjá svo margar uppskriftir á erlendum síðum með þessu snillar mjöli sem er að sjálfsögðu glútenlaust.

Eitt sem er frábært með þetta mjöl að það er mjög auðvelt að útbúa hnetusmjör úr því á núll einni.
Sykur, glútenlaust og próteinríkt hnetusmjör en 50% af mjölinu er prótein.





Hnetusmjör


20g af hnetumjöli frá Funksjonell
30-40ml af vatni (eftir hversu mjúkt þú vilt það)
salt klípa
2-3 tsk sukrin gold fyrir þá sem vilja

Setjið í skál og blandið vel saman.


Ég varð svo að prófa að útbúa hnetusmjörsís og guð hvað hann var góður! Hann var ekki lengi að hverfa ofan í magan á mér og syninum þegar hann kom heim úr skólanum. Vildi samt að ég hefði átt salthnetur til að saxa og setja í ísinn.

Hnetusmjörsís


1 egg
50g Sukrin:1 
70g hnetusmjör
380ml rjómi
5 dropar Caramel Toffee stevía

Þeytið saman eggi og sukrin:1. Bætið við hnetusmjöri og stevíu og í lokin óþeyttum rjóma. Þegar allt er vel blandað setjið þið í ísvél og farið eftir fyrirmælum á henni.

Ef þú átt ekki ísvél er hægt að þeyta rjóman og blanda svo öllu saman við og setja í box og í frystinn. Gott væri þá að hræra aðeins í ísnum á 30 mínútna fresti.