Saturday, August 3, 2013

Súkkulaði skál með þeyttum rjóma og berjum.

Núna á næstu mínútum er síðan mín að detta í heimsókn nr 15000! Það eru fimm vikur síðan ég byrjaði með bloggið og ótrúlega gaman að sjá hve margir koma hér inn og skoða :)

Um daginn var 45 ára brúðkaupsafmæli hjá tengdaforeldrum mínum og var haldið smá matarboð í því tilefni hér heima hjá okkur hjónunum. Ég ákvað að gera eftirrétt sem er var fallegur og með einföldum hráefnum og hvað er einfaldara en súkkulaði, rjómi og ber? Ég var búin að sjá á youtube að hægt væri að gera súkkulaði skálar með að nota blöðrur svo ég og dóttir mín fórum í smá dúllerí í eldhúsinu.








Skref eitt er að finna sér lítinn aðstoðarmann sem getur passað allar blöðrurnar :)

Blása blöðrurnar í þá stærð sem hentar. Stór blaðra = stór skál  Var með 
mínar nokkuð litlar.

Bræða súkkulaði í vatnsbaði. Ég notaði Green & Black (þetta er gömul mynd)


Taka blöðru og dýfa henni ofan í skálina eins langt og þú vild að skálin verði djúp.
Ráð: Notið helst glæra skál því það þarf að dýfa blöðrunum tvisvar sinnum og það er auðveldara
að sjá hve langt þú fórst síðast með blöðruna ef þú ert með glæra skál.


Raða blöðrunum á bökunarpappír og látið inn í ísskáp í 15 mínútur.

Dýfið aftur í súkkulaði og setið aftur inn í ísskáp í 15-20 mínútur.
Næst er að losa skálina frá blöðrunni. Stingið gat efst á blöðruna með nál eða títuprjón og leyfið loftinu rólega að fara úr blöðrunni. Þetta tekur smá þolinmæðisvinnu og það gæti þurft að toga blöðruna rólega úr skálinni. Alls ekki erfitt en það þarf að vanda sig. Ef blaðran losnar ekki auðveldlega frá er spurning hvort súkkulaðið sé ekki nógu vel harðnað og þurfi að vera nokkrar mínútur lengur í ísskápnum.

Síðasta skrefið er að þeyta rjóma og setja í skálarnar og skreyta með berjum.

Þetta slóg í gegn og var borðað með bestu lyst. Hver elskar ekki súkkulaði og rjóma? Jújú ég þekki nokkra en flestir gætu hugsað sér að fá eina svona skál :)

No comments:

Post a Comment