Saturday, August 29, 2015

Mjólkurlaus súkkulaðibúðingur



Þessi uppskrift er frábær sem bæði nesti fyrir okkur í vinnuna eða sem smá trít á kvöldin eða helgar.
Eins og með flest allt sem ég geri er þessi uppskrift auðveld og fljótleg. Hef þetta ekki lengra þar sem ég er á fullu í eldhúsinu að búa til nýjar uppskriftir ;)

Þykki hlutinn af kókosmjólkinni, 400ml dós.
(notið kókosvatnið svo í boost)
1msk ósykrað kakó
1msk Sukrin Melis flórsykur
1/2msk vanilludropar eða extract

Þeytið kókosrjómann og bætið við restinni af hráefnunum. Setjið í skál og inn í kæli. Skreytið með kókosflögum og berjum.






Monday, August 24, 2015

Kínóa og chia stangir

Sunnudagar eru orðnir hálfgerðir bökunardagar hjá mér. Reyni að nýta daginn til að útbúa nesti fyrir vikuna fyrir mig og krakkana. Mamman verður að útbúa chia graut fyrir strákinn til að taka með í skólann og svo er búið að bætast við prótein stangir sem ég hef verið að gera.
Í gær prófaði ég svo að gera kínóa og chia stangir. 




Kínóa er stútfullt af næringu svo sem prótín, kalki, járni, sinki, B-vítamíni og líkaminn nýtir næringuna úr korninu einstaklega vel. Gott er að næla sér í prótín úr fjölbreyttum fæðutegundum og þá er kínóa tilvalið en það inniheldur 12-18% prótín og allar níu nauðsynlegu amínósýrurnar sem líkaminn þarfnast. Einnig er kínóa glúteinlaust og hentar því þeim sem eru með glúteinóþol. Hægt er að matreiða það á margan hátt, sem graut, í súpur, pottrétti og salat svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að skola kínóað vel til að hreinsa burt efni sem er kallast saponin og er utan á korninu og gerir það biturt á bragðið. Einnig er hægt að leggja kínóa í bleyti yfir nótt og verður það þá auðmeltara og næringarefnin nýtast enn betur. (fengið af síðunni ibn.is)

Chia fræin eru ekki minna merkileg en kínóa og eru stútfull af næringu einnig.

Chia fræin er mjög próteinrík og innihalda allt að 30 gr af próteini í hverjum 100 gr sem er meira en er að finna í kjúklingabringu eða lambalæri! Það eru því tilvalið að bæta þeim út í orkudrykki , brauð og grauta til að auka próteininnihald máltíðarinnar.
Chia fræin eru einnig mjög rík af lífsnauðsynlegum omega 3 og omega 6 fitusýrum. Þau eru ríkasta uppspretta omega 3 sem völ er á í jurtaríkinu og myndu því teljast sérlega  góð fyrir einstaklinga með bólgusjúkdóma, þar sem omega 3 myndar  bólgueiðandi efni í líkamanum.
Yfirleitt skemmast omega fitusýrur við eldun en í chia fræjunum virðast þær þó ekki skemmast, sökum þess að fitusýrurnar eru bundnar andoxunarríkum trefjum fræsins. Þó er enn betra að nota chia fræ í hráu formi.
Þessir litlu næringarrisar eru mjög ríkir af kalki, járni, magnesíum og fosfór og eru einnig stútfullir af trefjum.
Líkaminn þarf á andoxunarefnum að halda til að viðhalda eðlilegri íkamsstarfsemi og æskuljóma. Chia fræ eru mjög rík af andoxunarefnum og stuðla því að heilbrigði hverrar einustu frumu líkamans.
Chia fræin eru einstaklega blóðsykursjafnandi sökum hás innihalds  próteins, trefja og fitusýra og stuðla því að betra blóðsykursjafnvægi.
Þau geta allt að 12 faldað þyngd sína ef þau eru látin liggja í vatni í dálitla stund, þau bólgna út og eru mjög seðjandi og gefa góða seddutilfinningu. (fengið af síðunni heilsubankinn.is)


Kínóa fræin eru ekki beint lágkolvetna ef fólk er að halda sér í ketósu (undir 20g af kolvetnum á dag) en þeir sem leyfa sér meira af kolvetnum ættu ekki að missa af þessari uppskrift.



Kínóa og chia stangir


80g kínóa
80g chia fræ
3msk Sukrin Gold
70g haframjöl 
(glútenlaus haframjöl fyrir þá sem vilja)
50g hnetur saxaðar
100g möndlusmjör
90g Fibersirup Gold
salt klípa
1tsk kanil

Blandið þurrefnunum saman í skál.
Setjið möndlusmjör og Fibersirup Gold í pott og hitið.
Setjið möndlusmjör og sirup í skálina með þurrefnunum og blandið vel við.
Gætir þurft að nota hendurnar til að klára að blanda öllu saman.
Setjið deigið í form sem er um 20x20 á stærð sem búið er að setja bökunarpappír í.
Ég sjálf er búin að brjóta formið mitt og bjó til form úr álpappír og setti bökunarpappírinn ofan í og það virkaði vel.
Þjappið vel úr deiginu og látið vera eins jafnt og hægt er.
Bakið á 175 gráður í miðjum ofni í 8-12 mínútur, passið að brenna ekki.
Látið kólna í nokkrar mínútur og skerið svo niður í bita með pizzuskera og látið kólna alveg.
Setjið í box og geymið.




Friday, August 21, 2015

Gulróta franskar


Ég borða ekki gulrætur, hef aldrei gert og var alveg viss um að ég myndi aldrei gera það. Svona svipað og með blómkál og brokkolí sem ég borða með bestu lyst í dag.
Allavega ákvað ég að prófa að útbúa gulróta franskar fyrir krakkana um daginn. Átti svo fallegar og stórar gulrætur í kælinum.
Ég verð að játa að þetta kom skemmtilega á óvart. Meira segja ég borðaði þær með bestu lyst og smakkaðist eins og sætar kartöflur.

Það er líka svo frábært að geta útbúið hollari útgáfu af einhverju sem börnunum finnst gott.
Var t.d. með kjúklinganagga uppskriftina mína og gulróta franskar með.

Hér er linkur á kjúklinganaggana mína:



Gulróta franskar


8 stórar gulrætur, skræla og þrífa
2msk olía, ég var með Avocado olíu
2msk timian eða rósmarín
1msk salt
1/2tsk pipar
1/2tsk paprikukrydd

Skerið gulræturnar í strimla og setjið í skál.
Setjið krydd og olíu í skálina og blandið vel saman við gulræturnar.
Raðið gulrótum á bökunarpappír og bakið þær á 200 gráðum í 20-25 mínútur.
Gott er að snúa þeim við einu sinni til tvisvar á meðan þær eru í ofninum.




Wednesday, August 19, 2015

Hollar nestishugmyndir.


Styttist vel í að skólar byrja og margir að byrja vinnu rútínuna hjá sér líka.
Í þessari færslu ætla ég að nefna góðar uppskriftir sem henta í nestisboxin hjá börnum sem og fullorðnum. Uppskriftir sem eru án viðbætt sykur/sykurlausar, hveitilausar og glútenlausar. Sumar eru einnig mjólkurlausar.


Pistasíu chia grautur





Jarðarberja chia grautur




Müsli





Brauðbollur




Kókosflögusnakk




Pizzusnúðar



Bláberjahlaup


Sesamskonsur








Vanillu próteinstöng



Kókoskúlur



Spínatpestó



Hnetusmjörskökur 



Oopsie



Vegan/mjólkurlaus boost



Bláberja chia grautur






Brauðbollur úr brauðmixi frá Funksjonell eru eggja, soya, hveiti, sykur, mjólkur og glútenlausar. 
Mér finnst gott að baka bollur úr mixinu yfir helgina og setja í frysti og taka út og borða daglega smá.



 


















Monday, August 17, 2015

Vanillu próteinstöng með pistasíum


Þessi uppskrift hefur slegið vel í gegn á heimilinu hjá mér, bæði hjá börnum og fullorðnum og er komin á óskalista yfir nesti hjá syni mínum.

Próteinið sem ég notaði er nýtt á markaði hér á landi en er frá sama framleiðanda og framleiðir Quest próteinstangir sem eru svo vinsælar. Próteinið er soyalaust, með engum viðbættum sykri (undir 1 gram af sykri í 28g) og glútenfrítt. (þetta er ekki kostuð auglýsing)

Stangirnar innihalda því prótein, góða fitu og í sírópinu er hellingur af trefjum svo að mínu mati hentar þetta í nestisboxið bæði hjá mér og krökkunum mínum, þá aðallega miðjubarnið sem er alltaf svangt, hreyfir sig ótrúlega mikið og er með svakalega brennslu.



Vanillu próteinstöng 2stk


50g Fibersirup Clear
30g Quest vanillu prótein
4msk saxaðar pistasíur
vanillufræ úr 1/4-1/2 vanillustöng
4 dropar vanillustevía (má sleppa)
2msk bragðlaus kókosolía sem er búið að bræða/hita
2msk kókos
2msk IQ súkkulaði saxað (má sleppa)

Setjið Fibersirup Clear í pott og hitið að suðu. Bætið við restinni af hráefninu og blandið vel saman. Bleytið hendurnar og formið á bökunarpappír tvær stangir og geymið í kæli. Einnig hægt að útbúa litla mola eða próteinkúlur og setja í kæli.

Mjög gott að setja smá IQ súkkulaði en súkkulaðið er sykurlaust, vegan, soyja og glútenlaust. 

Sunday, August 16, 2015

Súkkulaði stöng

Er að missa mig í því að útbúa allskyns uppskriftir sem henta í nestisboxið hjá mér og krökkunum.
Sykurlaust, hveitilaust og með góðri fitu og próteini sem mettar vel eða er frábært snakk.

Eins og ég sagði í fyrri færslunni minni mun ég svo setja inn eitt blogg þar sem ég verð með allar nestishugmyndir fyrir stóra sem smáa og verður linkur á allar uppskriftirnar.

Í dag var prófað að búa til prótein og súkkulaði stangir sem heppnuðust heldur betur vel þó ég segi sjálf frá. Mælikvarðinn var sá að allir smökkuðu á heimilinu og borðuðu með góðri lyst. Meira að segja eiginmaðurinn en hann er voða lítið fyrir sætindi og er frekar snakk og nammistanga maður svo þetta átti vel við hann.




Súkkulaði stangir 2stk.


50g Fibersirup Gold
5msk kókos
3msk möndlumjöl
2msk ósykrað kakó
2-3msk Sukrin Melis
4msk heslihnetuflögur
4 dropar toffee stevía (má sleppa)

Hitið síróp að suðu. Blandið restinni af hráefnunum í pottinn og blandið vel saman þar til verður að deigi. Formið með blautum höndum 2 stangir á bökunarpappír. Geymið í kæli.





Wednesday, August 12, 2015

Haframjölskökur





Ný vara sem er að koma á markaðinn hér á landi sem ég er mjög spennt yfir er Fibersirup frá Funksjonell. Ég var svo heppin að fá sitthvora siróps flöskuna gefins og hef verið að prófa mig áfram í eldhúsinu með þessari snilld. (tek það fram að þetta er ekki kostuð auglýsing heldur eru þetta upplýsingar sem ég er búin að vera kynna mér sjálf eftir að hafa áskotnast þessar vörur)


Fibersirup clear og Fibersirup Gold er síróp sem inniheldur aðeins 5% sykur og er mjög trefjaríkt. Sykurstuðullinn er 35 sem er svipað og hunang og agave síróp en hinsvegar er samt sem áður mun minni sykur í þessari vöru. Það er hægt að lækka sykurstuðulinn með því að nota sírópið með fitu í uppskriftum.

Ekki skemmir fyrir að sírópið inniheldur vel af trefjum.
Þeir sem eru með sykursýki 2 þurfa kannski að prófa sig áfram með þessa vöru.
En það sem er með þessa vöru og þær sem ég nota sem skiptir mig máli er það að þetta er mun hollara en hunang eða agavesíróp, skemmir ekki tennurnar og er nokkuð lágt í sykurstuðlum og heldur því blóðsykrinum í góðu jafnvægi.

Fibersirup Gold hef ég t.d. notað út á skyrið, jógúrtið, pönnukökur, karamellu, búið til síróps epli með kökum og í bakstur. Tilraunir í að útbúa karamellu popp er í vinnslu ;)
Fibersirup Clear hef ég svo notað í bakstur og próteinstykki jafnvel.





Nú styttist líka í skólasetningu hjá börnunum og litla barnið að fara byrja í skóla (hvert fór tíminn???)
Því hef ég verið á fullu að útbúa ýmsar nestishugmyndir sem eru hollar og góðar fyrir þau til að taka með sér og mun fljótlega setja saman eina færslu með öllum þeim uppskriftum sem börnin mín mæla með og nota :)

Þessar kökur voru ómótstæðilegar. Ég stóð í eldhúsinu og gúffaði í mig. Þær henta ekki þeim sem eru á ströngu LKL vegna haframjölsins en þetta er frábært nesti eða millimál.
Einnig er hægt að leika sér með þessa uppskrift og setja hnetur, rúsinur, þurrkuð ber eða annað sem hugurinn girnist til að breyta til.

Haframjölskökur 8-10stk


70g glútenfrítt haframjöl (eða venjulegt ef þolir glúten)
70g smjör
50g Fibersirup Clear
30g Sukrin gold
30g kókosmjöl
rúsinur, hnetur, þurrkuð gojiber eða önnur sem ykkur/börnin langar út í.

Setjið allt í pott og hitið á miðlungshita og blandið vel saman. Ef þið viljið setja rúsinur, ber eða hnetur setjið það í lokin og blandið vel við. Setjið á bökunarpappír og formið kökur með skeið eða höndum. Bakið á 175 gráður í 7-10 mínútur eða þar til gylltar.

Látið kólna á bökunarpappírnum áður en þær eru teknar af. Eru mjúkar á meðan heitar en harðna er kólna.




Sunday, August 9, 2015

Vanillu rúlla með hindberjakremi

Þessi uppskrift er búin að vera í kollinum á mér í þónokkurn tíma en eins og með svo margt þá þarf ég að vera í rétta stuðinu til að koma þessu í verk. Núna er akkúrat þannig stemming á mér að hugmyndirnar komast úr hausnum og verða að veruleika. Búin að taka sumarþrifið á íbúðinni. Ný vinna handan við hornið og ég býð spennt eftir að byrja í rútinu :)

Þessi uppskrift er auðveld að útbúa. Hún er líka fjlótleg sem skemmir ekki fyrir.






Vanillu rúlluterta


3 egg, aðskilja eggjahvítur og rauður
100g rjómaostur
2msk sýrður rjómi 36%
1tsk vínsteinslyftiduft eða venjulegt
1.5 vanillustöng
10 dropar vanillustevía
30g sukrin melis


Stífþeytið eggjahvítur með lyftiduftinu og setjið til hliðar.
Rjómaostur, eggjarauður, sýrður rjómi, sukrin melis, stevía og fræ úr vanillustöng þeytt vel saman.
Bætið eggjahvítum við með sleif og blandið vel en varlega.

Notið smjörpappír eða bökunarpappír sem búið er að smyrja með olíu (ég notaði avocado olíu) og fyllir heila ofnskúffu. Dreifið yfir pappírinn sukrin og setjið svo deigið.
Bakið á 175 gráður í ca 9-12 mínútur eða þar til gyllt.

Krem
50g rjómaostur
1 bolli frosin hindber
40g sukrin melis
10 dropar hindberja stevía (má sleppa)
150ml rjómi

Þeytið saman rjómaost, sukrin melis og stevíu.
Maukið berin þegar þau eru hálfþiðnuð eða alveg þiðin og sigtið fræin frá. Bætið við skálina og þeytið saman. Í lokin er rjóma bætt út í óþeyttum og þeytið þar til kremið verður stíft.

Dreifið kreminu á tertubotninn þegar hann er orðin kaldur og rúllið honum upp. Gott er að nota pappírinn til að hjálpa sér að rúlla upp.

Stráið yfir tertuna sukrin.