Sunnudagar eru orðnir hálfgerðir bökunardagar hjá mér. Reyni að nýta daginn til að útbúa nesti fyrir vikuna fyrir mig og krakkana. Mamman verður að útbúa chia graut fyrir strákinn til að taka með í skólann og svo er búið að bætast við prótein stangir sem ég hef verið að gera.
Í gær prófaði ég svo að gera kínóa og chia stangir.
Kínóa er stútfullt af næringu svo sem prótín, kalki, járni, sinki, B-vítamíni og líkaminn nýtir næringuna úr korninu einstaklega vel. Gott er að næla sér í prótín úr fjölbreyttum fæðutegundum og þá er kínóa tilvalið en það inniheldur 12-18% prótín og allar níu nauðsynlegu amínósýrurnar sem líkaminn þarfnast. Einnig er kínóa glúteinlaust og hentar því þeim sem eru með glúteinóþol. Hægt er að matreiða það á margan hátt, sem graut, í súpur, pottrétti og salat svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að skola kínóað vel til að hreinsa burt efni sem er kallast saponin og er utan á korninu og gerir það biturt á bragðið. Einnig er hægt að leggja kínóa í bleyti yfir nótt og verður það þá auðmeltara og næringarefnin nýtast enn betur. (fengið af síðunni ibn.is)
Chia fræin eru ekki minna merkileg en kínóa og eru stútfull af næringu einnig.
Chia fræin er mjög próteinrík og innihalda allt að 30 gr af próteini í hverjum 100 gr sem er meira en er að finna í kjúklingabringu eða lambalæri! Það eru því tilvalið að bæta þeim út í orkudrykki , brauð og grauta til að auka próteininnihald máltíðarinnar.
Chia fræin eru einnig mjög rík af lífsnauðsynlegum omega 3 og omega 6 fitusýrum. Þau eru ríkasta uppspretta omega 3 sem völ er á í jurtaríkinu og myndu því teljast sérlega góð fyrir einstaklinga með bólgusjúkdóma, þar sem omega 3 myndar bólgueiðandi efni í líkamanum.
Yfirleitt skemmast omega fitusýrur við eldun en í chia fræjunum virðast þær þó ekki skemmast, sökum þess að fitusýrurnar eru bundnar andoxunarríkum trefjum fræsins. Þó er enn betra að nota chia fræ í hráu formi.
Þessir litlu næringarrisar eru mjög ríkir af kalki, járni, magnesíum og fosfór og eru einnig stútfullir af trefjum.
Líkaminn þarf á andoxunarefnum að halda til að viðhalda eðlilegri íkamsstarfsemi og æskuljóma. Chia fræ eru mjög rík af andoxunarefnum og stuðla því að heilbrigði hverrar einustu frumu líkamans.
Chia fræin eru einstaklega blóðsykursjafnandi sökum hás innihalds próteins, trefja og fitusýra og stuðla því að betra blóðsykursjafnvægi.
Þau geta allt að 12 faldað þyngd sína ef þau eru látin liggja í vatni í dálitla stund, þau bólgna út og eru mjög seðjandi og gefa góða seddutilfinningu. (fengið af síðunni heilsubankinn.is)
Kínóa fræin eru ekki beint lágkolvetna ef fólk er að halda sér í ketósu (undir 20g af kolvetnum á dag) en þeir sem leyfa sér meira af kolvetnum ættu ekki að missa af þessari uppskrift.
Kínóa og chia stangir
80g kínóa
80g chia fræ
3msk Sukrin Gold
70g haframjöl
(glútenlaus haframjöl fyrir þá sem vilja)
50g hnetur saxaðar
100g möndlusmjör
90g Fibersirup Gold
salt klípa
1tsk kanil
Blandið þurrefnunum saman í skál.
Setjið möndlusmjör og Fibersirup Gold í pott og hitið.
Setjið möndlusmjör og sirup í skálina með þurrefnunum og blandið vel við.
Gætir þurft að nota hendurnar til að klára að blanda öllu saman.
Setjið deigið í form sem er um 20x20 á stærð sem búið er að setja bökunarpappír í.
Ég sjálf er búin að brjóta formið mitt og bjó til form úr álpappír og setti bökunarpappírinn ofan í og það virkaði vel.
Þjappið vel úr deiginu og látið vera eins jafnt og hægt er.
Bakið á 175 gráður í miðjum ofni í 8-12 mínútur, passið að brenna ekki.
Látið kólna í nokkrar mínútur og skerið svo niður í bita með pizzuskera og látið kólna alveg.
Setjið í box og geymið.
Hrikalega girnilegar stangir, spurning hvort það gæti verið gott upp á áferðina að nota poppað kínóa?
ReplyDeleteNú hef ég bara aldrei smakkað poppað kínóa svo ég þekki það ekki. Var bara að prófa það í fyrsta sinn á þessar stangir :)
Delete