Saturday, February 1, 2014

Kanilsnúðar


Það hefur farið lítill sem engi tími í bakstur eða heimagerðan mat síðustu tvær vikurnar í janúar. Langt síðan ég hef verið svona hrikalega upptekin og dagbókin mín er útskrifin alla daga vikunnar en ég elska þetta. Það færist einhvern vegin meira líf í mig við allt þetta stúss.

Það er mikil eftirvænting á heimilinu því við ákváðum að fá okkur eina kisu í fjölskylduna. Við kíktum á mánudaginn í Kattholt og þegar inn var komið þá var einn kettlingur sem átti hug okkar allan. Hann var svo óhræddur við okkur og kelin og ætlaði með okkur heim á staðnum. Börnin urðu ástfangin frá fyrstu mínútu og nafnið sem hann bar var nafn sem þau elska en kisi heitir Batman. Verst er að Batman kallinn er búin að vera eitthvað illt í maganum og því ekki hægt að ormahreinsa og örmerkja fyrr en hann er orðin betri. Við vonumst til að geta tekið hann heim eftir helgi.

Við mæðgur erum aleinar heima þessa helgina og í morgun var skellt sér í eldhúsið að baka kanilsnúða. Þeir heppnuðust mjög vel. 



Kanilsnúðar 6 stk

25 g mjúkt smjör
1 egg
60 g möndlumjöl
1,5 msk kókoshveiti
2 msk sukrin melis
1,5 tsk lyftiduft
1 tsk fiberhusk
3 dropar Via-Health kanil dropar

Fylling

50 g smjör
1.5 msk sukrin gold
1 tsk kanill

Blanda smjöri og þurrefnum vel saman.
Eggi bætt út í og öllu vel blandað saman. Ef deigið er mjög blautt er gott að bæta smá möndlumjöl við en stærð eggjar getu haft áhrif á hversu blautt það verður. Deigið sett í ísskáp í ca 10 mínútur. Sett á bökunarpappír og önnur örk af bökunarpappír sett yfir og rúllað út í litinn ferhyrning. Fyrir fyllinguna þá er smjör ásamt strásætu og kanil sett í pott og látið bráðna saman. Dreift á deigið og því rúllað upp. Getur verið pínu vinna en gott að nota bökunarpappírinn til að hjálpa við upprúllunn. Svipað og gert er þegar hakkrúlla er rúlluð upp, fyrir þá sem kannast við það. Rúllan skorin í sneiðar og sett í muffinsform. Bakað undir miðjum ofni í 20 mínútur á 150 gráður.

No comments:

Post a Comment