Ágúst að klárast. Börnin byrjuð í skólanum og leikskóla og ég farin að vinna. Það er alltaf gott að fá smá rútínu eftir sumarfrí. Hvað þá þegar sumarfríið fór að hluta til að gera upp og mála íbúðina. Ég er pínu skrítin að alltaf í lok ágúst er ég farin að hlakka til jóla. Það er orðið dimmt á kvöldin og hægt að kveikja á kertum og hafa kósý og einhvern vegin minnir það mig á jólin. Og ég fór að hugsa....jól og sörur. Jól og lkl sörur, svo núna er ég á fullu að vinna í því að gera skothelda söru uppskrift fyrir jólin. Það er ekki eins auðvelt og ég hélt en þetta fikrast áfram og verður vonandi tilbúið fyrir jól.
En ég ætlaði nú ekki að tala meira um jólin (120 dagar!) og fara í pizzuna. Ég hef aldrei verið fyrir blómkál en fór einhvern vegin að elska það. Elska að búa til blómkálspoppið og ákvað að prófa að gera pizzubotn úr blómkáli. Hljómar ekkert sérlega vel en trúið mér, það er gott!
Pizzubotn
1 Blómkálshaus (ekki of stóran)
1 egg
2 dl rifin ostur
1 tsk hvítlaukssalt
2 msk möndlumjöl (valfrjálst, ég sleppi)
Byrja á því að skola vel af blómkálinu og láta þorna. Því næst er að skera blómkálið niður í litla bita og sleppa stilkinum alveg. Setja í matvinnsluvél þar til að það verður eins og hrísgrjón.
Næst er að setja hrísgrjónin í pott með smá vatni og láta sjóða í nokkrar mín. Þetta hjálpar til með að losa vökva úr blómkálinu.
Því næst er að sigta frá vatnið og leyfa grjónunum að kólna.
Þegar grjónin hafa fengið að kólna eru þau sett í viskustykki og þá er að vinda vel og vandlega allan vökva úr grjónunum.
Þegar búið er að vinda eiga grjónin að líta svona út, eins og lítil deigkúla.
Hráefnum er blandað saman í skál og best er að nota hendurnar.
Bökunarpappír er svo spreyjað með Pam spreyi eða olíu til að passa að botninn festist ekki við og auðvelda að losa frá eftir eldun.
Nota hendurnar til að mynda pizzuna. Deigið á að vera blautt í sér. Passa þarf samt að pizzan má ekki vera of þunn.
Setja botninn í 180 gr heitann ofn og bakað í 10-20 mín eða til gullinbrúnt. Gott er að hafa ofnplötuna í ofninum þegar hann er að hitna.
Nú er að setja sósu og álegg á pizzuna og aftur inn í ofn þar til osturinn er bráðnaður. Gott ráð er að setja ekki of mikla sósu þar sem blómkálið á það til að sjúga í sig vökva og því gætu dagnn eftir pizza verið dálítið blaut.
PIZZUSÓSA
Gerir um 450 ml.
1 1/2 tsk olía
1/2 eða lítill laukur saxaður
3-4 hvítlauksgerirar
1 dós af tómötum
1/2 tsk sukrin eða sukrin gold
2 tsk oregano
2 tsk basil
1 tsk hvítlaukssalt
2 tsk pizzukrydd.
Hita olíu á pönu á meðal hita. Bæta lauk og elda til hann er mjúkur. Hvítlaukur bættur við og eldað í 2 mín. Því næst er það tómatarnir og kryddið. Þegar sósan byrjar að malla hitann og leyfa að malla í ca 15 mín. Mauka svo með töfrasprota.
Sósan er heldur bragðlítil fannst mér þegar ég gerði hana fyrst og því setti ég hér fyrir ofan meir af kryddum. Hún er líka aðeins bragðminni þegar hún er heit og kom meira bragð á hana þegar hún kólnaði. Annars er bara að smakka sig til og byrja kannski með helmingi minna af kryddum og frekar þá bæta við. Ég vil hafa mína pizzasósu bragðmikla ;)
En endilega fylgist með hér inná því fljótlega kemur söru uppskriftin inn! Það er hægt að skrá sig á póstlista og fá eimail þegar ég set nýjar uppskriftir inn ef áhugi er fyrir því :)
Mjög flott uppskrift hjá þér og fínar skýringamyndir af botninum, takk fyrir þetta :-)
ReplyDeleteAllar uppskriftir sem ég hef reynt frá þér eru æði! Þessi var meiriháttar, takk fyrir góðar leiðbeiningar ;-)
ReplyDeleteHæhæ myndi virka að sleppa egginu eða ostinum í deiginu?
ReplyDeleteEg hef ekki prófað það. Eggið og osturinn er bindingarefnið í uppskriftinni til að halda því saman. Þú getur prófað að sleppa öðruhvoru en ég veit ekki hvernig það kæmi út.
Delete