Tuesday, April 7, 2015

Hnetusmjörs gotterí

Páskarnir búnir, ljúft. Já ég elska að komast í rútínu aftur.
Við vorum bara þrjú í kotinu þetta árið þar sem strákarnir voru hjá pabba sínum á Akureyri.
Þar var víst bongóblíða og miðjan mín kom heim í gær og var greinilega að safna freknum á Akureyri.
Við hjónin fórum í hjólatúr með yngsta á meðan og kíktum í Húsdýragarðinn á milli þess að vera í náttfötunum og hafa kósý.
Við fengum öll súkkulaði egg. Ég fékk mér sjálf hvítt súkkulaðiegg.
Allir voða spenntir fyrir páskunum og svo kom dagurinn. Við leituðum af eggjunum, settumst niður og fengum okkur smá bita og svo bara búið. Því eigum við hér 3 næstum óétin páskaegg.

Á næsta ári ætla ég ekki að kaupa mér egg. Ég datt aðeins út af sporinu um páskana og fékk mér ýmislegt sem ég hef ekki látið eftir mér lengi. Sé svo eftir því. Hef verið laus við gigtarverki allt þetta ár og svo núna, blehh já ég ætla víst aldrei að læra þetta.

En hér er uppskrift sem ég slumpaði saman um daginn.
Átti þetta heillengi í frystinum. Gleymdi þessu þar.
Elsta barnið var ekki lengi að þefa þetta upp og kláraðist svo samdægurs.

En þetta er æði til að fá sér smá bita þegar manni vantar smá til að narta í. Gott er að skera nammið í litla bita og geyma í frystinum eða ef þið eruð viss um að þetta verði ekki til lengur en í 2 daga þá er hægt að geyma í kælinum og rífa klípu af og fá sér.



Hnetusmjörs gotterí

100g hnetusmjör t.d H-Berg
1msk sukrin gold
15g smjör
1-2msk rjómi eða kókosmjólk
75g salthnetur
1-2 dropar toffee stevía frá now

Setjið í pott og hitið á vægum hita. Hrærið í og blandið vel saman og setjið svo í silikonform eða form sem er með bökunarpappír á og í frysti í ca 30 mínútur.
Skerið í bita og geymið í frysti.



No comments:

Post a Comment