Wednesday, October 8, 2014

Heslihnetu mousse


Í dag ætlaði ég að gera skotheldar heslihnetukökur. Þegar ég svo opnaði ofninn eftir nokkrar mínútur varð allt í reik, kökunar að mestu brunnar og orðin ein flöt klessa. Eins og það væri ekki nóg, þá fór Securitas reykskynjarinn í gang og jáhh bæði þjófavarnakerfið og extra háværi reykskynjarinn vældu. Ég var nálægt því að verða heyrnalaus. Ég byrjaði að skafa kökumylsnunar upp og troða upp í mig og bragðið var bara ekki sem verst, semsagt það sem var ekki brunarústir. Kona deyr ekki ráðalaus og ákvað því bara að útbúa heslihnetu mousse og jáhh, það heppnaðist ótrúlega vel :)

Nýjar fréttir eru annars þær að ég er nýjasti bloggari hjá MS-Gott í matinn og munu birtast LKL vænar uppskriftir mánaðarlega.
Einnig verður viðtal við mig í Fréttablaðinu á föstudaginn. 
Dóttir mín var svo ánægð þegar hún sá að ljósmyndarinn væri komin og hún heima. Var ekki lengi að henda á sig skykkju og kórónu og taka sér sæti við hlið mömmu sinnar.





Heslihnetu mousse fyrir 4



Heslihnetukurl

30g smjör, við stofuhita
100g heslihnetumjöl
3msk sukrin gold

Setjið heslihnetur í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður í mjöl.
Setjið allt hráefnið í skál og blandið vel saman. 
Dreifið á bökunarpappír og setjið í ofn sem er 180 gráðu heitur og bakið í 5-7 mínútur eða þar til gyllt. Fylgist vel með svo ekki brenni.
Látið kólna og myljið niður og geymið í skál.

Mousse

50g sykurlaust súkkulaði hreint
50g sykurlaust súkkulaði með heslihnetum
(má líka vera 100g hreint súkkulaði)
1 eggjarauða
2msk sukrin plús
4 dropar Via-Health súkkulaði stevía (má sleppa)
200ml rjómi
2 matarlímsblöð

Setjið matarlímsblöðin í skál með vatni og látið liggja þar til orðið lint.
Setjið súkkulaðið og rjóma í pott og bræðið við vægan hita.
Bætið við stevíu, sukrin plús og eggjarauðu í pottinn og hrærið vel.
Takið matarlímin og kreystið afgangsvökva úr og setjið í pottinn. Hrærið þar alveg uppleyst.

Setjið heslihnetukurl í 4 desert skálar. Skiljið smá eftir fyrir skraut. Skiptið svo súkkulaði blöndunni á milli skálana og setjið í kæli ca klukkutíma. Þeytið rjóma og setjið smá rjóma yfir hvert glas ásamt hnetukurli.
Geymið í kæli.




No comments:

Post a Comment