Ohh vorið er komið, nei nú er komin snjókomma, nei sko! Sól, æji rigning!
Já svona ekta íslenskt veður þessa vikuna :) En ég er virkilega farin að þrá sumar og sól. Börnin líka, þau bíða spennt eftir að komast út léttklædd að leika. Þegar biðin er löng finnst mér hrikalega gott að útbúa góða drykki sem minna mig á sumar og sól. Síðustu vikur hefur því nýji yndislegi blandarinn minn fengið að sýna krafta sína í eldhúsinu og ýmsir drykkir búnir til. Mjólkurhristingar, bæði vanillu og súkkulaði. Hnetusmjörs bomba er sjúklega góður drykkur en þetta fer allt að sjálfsögðu í bókina sem er í bígerð ;)
Þessi varð svo til áðan þegar ég var að baka. Opin kókosmjólkur dós og frosin jarðaber í frystinum. Ekki þörf á klaka og tók 3 mínútur að útbúa. Sjúklega góður. Börnin voru ekki lengi að taka fram rör og skála fyrir komandi sumri :) Þessi uppskrift dugar í fyrir tvo.
Sumardraumur.
1 dós kókosmjólk, 400 ml
10 frosin jarðaber
2 msk sukrin melis
Frekar einfalt og fljótlegt. Setja allt í blandara og mauka þar til silkimjúkt. Ég setti svo tvö frosin jarðaber ofan í sem klaka. Börnunum finnst gott að borða hálf frosin jarðaber :) Skiptið út jarðaberjum fyrir bláber eða hindber eða blandið saman :)
No comments:
Post a Comment