Tilraunir í jólabakstri halda áfram og með minna samviskubiti núna því það er alveg að koma nóvember. Reyndar dáldið síðan ég gerði þessar. Núna er ég búin að vera heima með veika mús og sé fram á að vera eitthvað lengur. Finnst að það ætti að vera bannað með lögum að lítil börn þjáist af hausverk vegna stíflaðra kinnhola og lungnabólgu. Hef sjálf fengið þetta og það sem ég var veik! Dóttirin stendur sig mun betur en mamman gerði og gleymir inn á milli verkjunum.
Í dag var þessi líka fallega sól að skína vel og vandlega inn um gluggana hjá mér og sýna mér allt þetta ryk sem er út um allt hjá mér. Ohhh það sem ég varð pirruð. Þangað til ég uppgvötaði að ég gæti nú notað þessa sól til að taka myndir af marengskökunum! Við það að taka myndirnar uppgvötaði litla veikindapésinn kökurnar og held að þær séu að verða búnar enda er hún algjör súkkulaðigrís.
Marengskökur
Ca. 40 stk
2 eggjahvítur
salt klípa
25 g sukrin melis
8-10 dropar Via-Health vanillu, piparmintu eða original dropar
50 g saxaðar möndlur eða hnetur eftir ósk
100 g saxað súkkulaði 70% eða yfir
Hita ofninn á 175 gráður.
Eggjahvítur, stevía dropar og salt stífþeytt saman. Sukrin melis er svo bætt út í og þeytt smá áfram. Súkkulaði og möndlur blandað varlega saman við með sleif. Sett á bökunarpappír með tsk. Um leið og kökurnar fara inn í ofn er slökkt á ofninum og kökurnar látnar vera þar inn í í 2-2 1/2 tíma.
Girnilegar :)
ReplyDelete