Þessi uppskrift er ég búin að eiga lengi en breytti henni aðeins í vikunni.
Ég og Hríma (það er Kitchenaid vélin mín) erum búnar að eiga gæðastundir saman í eldhúsinu að baka allskyns gotterí.
Maðurinn minn er ekki mikið fyrir sætt. Hann er meira snakk maður en loksins já loksins kom eitthvað úr eldhúsinu sem honum líkaði og ekki ein tegund, heldur tvær.
Ég held að það sé vegna samvinnu okkar Hrímu.
Honum leist svo vel á kökurnar að hann fór með fullan poka af þeim í vinnuna í gær og bauð vinnufélögunum með sér í kaffinu.
Þó svo að hann sé lítið fyrir sætt hefur hann fulla trú á mér og bókinni og fór sem dæmi með kynningareintakið mitt með sér í vinnuna til að reyna selja nokkur eintök í forsölu. Hann var víst búin að ná að selja nokkrum en vildi endilega fá að sýna bókina og fá fleiri pantanir.
Ég sé alveg fyrir mér kaffitímann í dag. Húsasmiðir koma þreyttir inn úr kuldanum í kaffi og fara að skoða litríku og dúllulegu bókina mína meðan þeir sötra kaffi og japla á smákökum.
Snickerskökur
1 egg
50g mjúkt smjör
40g sukrin gold
50g saxað sykurlaust dökkt súkkulaði (ég var með Valor)
45g saxaðar salt hnetur
15g kókoshveiti
30g möndlumjöl
10 dropar english toffee stevía frá Now eða önnur karamellu stevía
Saxið súkkulaði og hnetur og setjið í skál.
Setjið allt hráefnið í skál og hnoðið vel saman í höndum.
Setjið í kæli í 10-15 mínútur og takið svo út og rúllið upp.
Skerið í sneiðar. Þykkt og stærð fer eftir því hversu stórar kökur þú vilt hafa.
Setjið á bökunarpappír og bakið á 175 gráðum í 6-10 mínútur eða þar til gylltar.
Hrikalega góðar með ískaldri mjólk eða möndlumjólk.
Langar að benda ykkur á nýjasta bloggið mitt á MS-Gott í matinn en þar er ég með kanilís, piparkökur og heitt kakó. Einnig hugmyndir að fjölskyldu dagatali fyrir desember og hvað hægt er að nota hvíta sykurinn sem leynist upp í skáp í fallega og ilmandi gjöf.
No comments:
Post a Comment