Wednesday, July 9, 2014

Súkkulaðibita kökur

Eftir að hafa verið nokkuð andlaus í eldhúsinu síðustu vikur þá kom andinn yfir mig í dag. Allt í einu hafði ég þörf að skoða uppskriftir og búa til og baka og ég get ekki beðið eftir að halda því áfram á morgun með dóttur minni en eins og er erum við bara tvær komnar í sumarfrí.  Í kvöld skelltum við í hrikalega góðar súkkulaðibita kökur sem renna ljúft niður með mjólkurglasi. Þær eru með stökkum hring utan um sig en mjúkar í miðjunni. Ég ætlaði nú að hafa Maccademíu hnetur í kökunum til að hafa þær fullkomnar en fattaði svo að hneturnar eru komnar út í fellihýsi og eftir að hafa íhugað að opna hýsið bara fyrir hneturnar ákvað ég að sleppa því. Súkkulaðið sem ég keypti var frá DeBron og var með eitt dökkt súkkulaði og svo hvítt súkkulaði með núggatfyllingu. Þið getið notað annað súkkulaði sem ykkur líkar við en ég verð að játa að ég er sucker fyrir hvítu súkkulaði og núggati og það var himneskt að bíta í kökurnar og fá bita af því með.

Súkkulaðibita kökur





65g möndlumjöl helst ljóst
20g kókoshveiti
110g smjör við stofuhita
1/2tsk lyftiduft eða vínsteinslyftiduft
100g sukrin gold
6-8 dropar bragðlaus stevía
1 egg
1/4tsk salt
2tsk kanill
1stk debron súkkulaði eða 50g af öðru sykurlausu súkkulaði
1stk debron hvítt núggatfyllt súkkulaði 
Maccademíuhnetur ef þið viljið

Smjör, stevía og sukrin gold þeytt vel saman í ca 5 mínútur þar til fluffy. Í aðra skál, setjið þurrefnin og blandið saman. Bætið þurrefnum við smjörið og blandið vel. Bætið við eggi og blandið vel. Útbúið litlar kúlur og setjið á bökunarpappír og þrýstið þær smá niður. Hafið gott bil á milli þar sem kökurnar stækka vel í ofninum. Bakið á 175 gráður í 8-10 mínútur eða þar til gullinbrúnar. Látið kólna áður en fjarlægðar af bökunarpappíri.

No comments:

Post a Comment