Sunday, October 6, 2013

Lamba innralæri með blaðlauks sveppa sósu


Á fimmtudaginn áttum við hjónin brúðkaupsafmæli. Í ár ákváðum við að gera eitthvað sem við höfum aldrei gert, fara tvö saman í bústað og vera í heila helgi! Já, heil helgi bara tvö út í buska. Og þvílíkt sem það var yndislegt. Einu skiptin sem ég fór úr húsi var til að hoppa í pottinn annars voru það náttföt og kósíheit. Við spiluðum mikið, borðuðum æðislegan mat, hlógum mikið og nutum þess að eiga hvort annað. Kannski extra mikið langþráð frí þar sem við hittumst alltof sjaldan og satt að segja er mjög erfitt að taka heila helgi af stuttri dvöl hans frá börnunum, en stundum þá verðum við að vera eigingjörn og vera bara tvö.




Ég fékk að velja matinn fyrir föstudaginn og Jónbi fyrir laugardaginn. Val hans var lamba innralæri með blaðlauks sveppa sósu eins og mamma hans gerði þegar hann var yngri. Maturinn var æðislegur og ekki annað hægt en að deila með ykkur hér á blogginu.

Grillað lamba innralæri með blaðlauks sveppa sósu



Fyrir tvo

300-400 g innralæri
lamb islandia krydd

Innralæri kryddað með Lamb Islandia kryddi eða öðru kryddi, helst kvöldið áður.
Grillið á vel heitu grilli í 2 mín á hvorri hlið eða þar til kjötið er orðið fallega brúnt.
Lækkið þá hitann á grillinu eða hækkið grillgrindina og grillið í 8-10 mín í viðbót. Passið að snúa kjötinu reglulega á meðan.




Blaðlauks og sveppa sósa


150 g sveppir
1 lítill blaðlaukur
250 ml rjómi
1 msk smjör
salt og pipar

stilkur af blaðlauki og sveppir saxað smátt og steikt á pönnu með smjöri í nokkrar mín. Rjómi bætt við og þegar suða kemur upp er slökkt undir og hrært í sósunni. Saltað og piprað eftir smekk.




Salatið sem ég varð með var spínat, smátt söxuð appelsínugul paprika, fetaostur, parmaskinka og parmesan ostur. Gat ekki verið betra :)


No comments:

Post a Comment