Í þessu bloggi er engin uppskrift. Þetta er blogg sem mér finnst ég þurfa að koma frá mér. Ástæðan er sú að með því að skrifa þessa hluti er ég að sætta mig við að þetta er hluti af mér, hætta í afneitun og það sem kannski skiptir mestu máli, hætta að skammast mín. Ég hef í þó nokkurn tíma verið að íhuga að skrifa þetta blogg. Ég stundum ligg á nóttinni andvaka og skrifa í huganum, en alltaf hætti ég við. Það er mjög erfitt fyrir mig að skrifa þetta og akkúrat núna er hjartað á fullu og líkaminn titrar. En mér finnst þetta vera eitthvað sem ég þarf að skrifa niður. Það er hluti af mínu ferli.
Fyrir 18 mánuðum síðan (ég er með dagsetninguna og tímann alveg á hreinu, það er bara eitthvað sem er fast í hausnum á mér) var ég ein á rölti að kvöldi til erlendis. Það var ráðist á mig. Ég var heppinn. Maðurinn náði ekki að gera það sem hann ætlaði sér, en náði samt sem áður að gera hluti. Smá spörk og tuska mig aðeins til auk káfs, klips og að sleikja á mér kinnina og reyna að fara í sleik við mig. Ég man hvernig ég einhvern vegin hvarf úr líkamanum mínum og var ekki á staðnum. Ég man líka að ég fór aftur inn í húsið sem ég var í og lét eins og ekkert væri. Í staðin fyrir að drekka vatn eins og ég var búin að gera hellti ég í mig áfengi og hló mikið. Ég var heppinn að hann ákvað að skilja eftir marbletti á stöðum sem ég gat falið. Þetta er atburðurinn sem fyllti skúffuna mína sem ég hef verið að troða slæmum hlutum sem hafa komið fyrir mig alla ævi. Ætli skúffan hafi ekki bara loksins verið orðin full og ekki hægt að láta eins og ekkert sé lengur.
Þetta var ekki fyrsta né annað sinn sem brotið var á mér heldur þriðja sinn. Ég hafði bara aldrei litið á hin skiptin sem eitthvað brot gegn mér og fannst bara þar sem ég var full 16 ára og svo aftur 20 ára að þetta væri bara mér að kenna. Einnig fannst mér ég ekki eiga rétt á því að kvarta. Það voru fullt fullt af konum sem höfðu lent í verri hlutum en ég og ég ætti því engan rétt á því að láta mér líða illa og setti því þessar minningar og tilfinningar ofan í skúffuna mína.
En aftur að árinu 2013. Ég kom heim til Íslands og í vinnuna mína og lét eins og ekkert væri. Maðurinn minn var að vinna á Grænlandi á þessum tíma og því gat ég látið eins og ekkert væri á daginn og á kvöldin fylltist ég af vanlíðan. Vanlíðan varð bara meiri þar til ég hætti að mæta í vinnuna. Um tveimur mánuðum eftir þessa lífsreynslu hafði ég kjark að fara til yfirmanna minna og segja frá þessu. Það var fyrsta skrefið hjá mér. Ég fékk mikinn skilning og stuðning. Næsta skref var að segja manninum mínum frá þessu. Hann vissi ekkert um að að ég væri hætt að geta mætt í vinnuna. Þegar hann kom heim í frí til Íslands sagði ég honum frá þessu.
En ég fór í afneitun og hélt að ég þyrfti ekki að gera meira í þessu. Og í staðin fyrir að taka virkilega á hlutunum og vinna úr þeim þá ákvað ég að mér myndi pottþétt líða betur ef ég myndi skipta um vinnu. Hélt að þessi skúffa sem var orðin yfirfull myndi einhvern vegin stækka við þessa ákvörðun.
Ég var ótrúlega ánægð með nýja vinnustaðin og hellti mig í mikla vinnu. En smátt og smátt fór líkaminn og andlega hliðin hjá mér að molna niður. Vefjagigtin fór að taka yfir mér ásamt þunglyndi.
Þunglyndið síðasta vor var orðið það mikið að ég var orðin fullviss að mér væri ekki bjargandi og að ég væri byrgði á fjölskyldu mína og best væri að enda það. Ég átti lyf sem ég gæti notað til að taka inn. Ég las mig til og vissi hverskonar sársauka það myndi valda mér að taka of stóran skammt. Eina sem mig vantaði var að finna réttan tíma til að gera þetta. Þegar ég ákvað þetta var komin júní og ég vildi ekki eyðileggja sumarið fyrir börnunum mínum og eyðileggja það með að eiga minningu um mömmu sem fyrirfór sér hvert sumar. Því ákvað ég að október væri fínn tími. Ég ætlaði að brosa og eiga góða stund með fjölskyldunni um sumarið svo þau myndu allavega eiga einhverjar nýlegar minningar af okkur saman sem væri góðar. (það er virkilega erfitt að skrifa þetta og játa).
Það sem bjargaði mér var að ein góð vinkona mín missti vinkonu sína á þennan hátt og ég hugsaði til hennar. Ég ákvað að leita ráða hjá henni þar sem hún var að klára læknanám og hún benti mér á að fara á bráðamóttöku geðsviðs. Ég lofaði henni að gera það. Tveimur dögum seinna fór ég þangað með eiginmanni mínum því ég var viss um að ef ég færi ein myndi ég hætta við. Hann vissi í raun ekki hversu alvarlega veik ég var, vissi bara að mér leið illa eftir árásina. Í stuttu máli var ég lögð inn strax á geðdeild. Hrikalega var það erfitt. Þarna þurfti ég að útskýra fyrir manninum mínum hversu veik ég væri og að ég þurfti að leggjast inn. Einnig þurfti ég að láta hann vita að ég væri búin að fela lyf á góðum stað heima sem hann þyrfti að koma með eða fara með í apótek og láta farga. Ég bað hann um að segja ekki neinum frá sem hann virti.
Þegar ég gekk svo inn á deildina var erfið stund þegar ég sá mömmu bekkjarfélaga dóttur minnar sem starfsmann þarna inni. Það var hrikaleg reynsla. Skömmin fyrir sjúkdómnum mínum var svo mikil. Skömmin að vilja frekar deyja en takast á við yfirfullu skúffuna af allskonar áföllum frá því ég var barn var of mikið fyrir mig. Ég held að maðurinn minn hefði ekki getað staðið sig betur en hann gerði. Ég fór að gráta þegar ég sá þessa konu og skammaðist mín svo mikið. Þá sagði minn: Hafdís, þú ert ekki fyrsta né sú síðasta sem leggst inn á geðdeild. Þetta er ekki heimsendir. Þú hefur ekkert til að skammast þín fyrir.
Eftir tvo daga inni þorði ég loks að hringja í pabba minn og segja honum hvað var í gangi. Hann kom strax til mín í heimsókn. Sama dag lét ég mömmu vita sem var í útlöndum með börnin mín. Ég ætlaði ekki að segja henni neitt, vildi ekki skemma ferðina en pabbi vildi að ég sagði henni. Hún hringdi í mig og spjallaði. Ég hringdi líka í bestu vinkonu mína og sagði henni hvað var í gangi. Við grétum saman í símanum Það var hrikalega gott að þurfa ekki að halda þessu leyndu fyrir mínum nánustu lengur.
Ég lá inni í 5 daga. Í fimm daga þurfti ég ekki að gera neitt nema sinna sjálfri mér. Fara í sturtu, stunda slökun, fara í göngutúr, borða og hvíla mig. Ég passaði mig mikið á því að vera ekki að kynnast fólki þarna en smátt og smátt myndaðist vinabönd og síðasta kvöldið mitt hló ég í fyrsta sinn fyrir alvöru í langan tíma. Mér leið vel í fyrsta sinn í langan tíma. Ég var ekki að þykjast og setja upp grímu og fela tilfinningar mínar. Þarna inni gat ég verið ég sjálf.
Eftir að ég kom út fór ég í VIRK. Þar hef ég fengið sálfræðiaðstoð, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfara og yndislegan ráðgjafa sem eru enn að sinna mér. Mér fannst virkilega erfitt að sættast við það að vera óvinnufær og geta ekki unnið. Það var og er erfitt að hitta fólk út á götu og þegar það spyr hvar ertu að vinna, þá hef ég yfirleitt logið að ég sé að gera hitt og þetta. Að ég sé í freelance heiman frá mér eða að ég sé bara heimavinnandi. Það eru bara enn miklir fordómar fyrir sjúkdómum sem sjást ekki. Hvað þá þegar maður er með bæði vefjagigt og þunglyndi. En verstu fordómarnir koma frá mér sjálfri.
Það sem hefur einnig bjargað geðheilsu minni mikið síðasta árið er bloggið mitt. Þegar mér leið illa eða áfallastreituröskuninn bankaði upp hjá mér fór ég oftast inn í eldhús og bjó til eitthvað gómsætt, tók myndir og bloggaði. Á blogginu mínu gat ég verið einhver sem hafði ekki lent í því að eiga yfirfulla skúffu af slæmum hlutum. Þessi skúffa þurfti ekki að fylgja mér þar. Þar gat ég gleymt raunveruleikanum um stund og verið sú sem ég vildi. Í dag eftir að hafa lesið sögu tugi kvenna inn á Beauty tips ákvað ég að segja mína sögu. En mér finnst það ekki nóg því það er svo margt sem tengist því kynferðisbroti sem ég varð fyrir og afleiðingarnar eru að valda mér erfiðleikum enn í dag. Þvi ákvað ég að skrifa þennan pistil. Ég ákvað að hætta að vera í feluleik. Hætta að skammast mín fyrir skúffuna mína sem ég er smátt og smátt að byrja að tæma með að takast á við reynsluna, vinna úr henni og sættast við hana.
Ég veit ekki hvort einhver nennir að lesa alla langlokuna hjá mér en ef þetta hjálpar einhverjum, þó það sé bara ein manneskja sem fer og leitar sér hjálpar þá er ég ánægð.
Ást og friður
Hafdís
takk fyrir að deila þessu með okkur, við eigum svo mörg skúffur og jafnvel heilar kommóður sem þarf að vinna úr. Sem betur fer er það hægt.
ReplyDeleteknús og kærleikur <3
Takk fyrir að deila þessu með okkur. Þú ert frábær bloggari og ég vona að þér Gangi allt í haginn :)
ReplyDeleteFlott hjá þér :) og ég svo viss um að þessi saga hjálpi mörgum, haltu áfram því sem þú ert að gera
ReplyDeleteTakk fyrir að deila þessu með okkur. Þú ert frábær bloggari og ég vona að þér Gangi allt í haginn :)
ReplyDeleteÉg fæ tár í augun þegar ég les þetta. Mér finnst þú ótrúlega sterk að segja frá. Gangi þér rosalega vel í. Baráttu þinni.
ReplyDeleteÉg fæ tár í augun þegar ég les þetta. Mér finnst þú ótrúlega sterk að segja frá. Gangi þér rosalega vel í. Baráttu þinni.
ReplyDeleteTil hamingju! Þú hefur ekkert að skammast þín fyrir. Gangi þér vel :)
ReplyDeleteÞú ert frábær og sterk fyrirmynd. Mér finnst magnað að þú hafir áorkað svona miklu á þessum tíma (bloggið, bókin osfrv.), á meðan þú varst að ganga í gegnum þetta allt saman. Þú átt greinilega frábært fólk að.
ReplyDeleteInnilega til hamingju með þessa grein, takk fyrir að deila <3
Farðu vel með þig og gangi þér vel.
ekkert smá sterk! takk fyrir að deila
ReplyDeleteFlott hjá þér að deila og gangi þér vel!!! Takk líka fyrir frábaerar uppskriftir!
ReplyDeleteÞú ert hetja!!!! Það þarf mikinn kjark til að leita sér aðstoðar eins og þú gerðir og opna sig fyrir fjölskyldu+vinum og okkur hinum :) takk fyrir að deila þessu með okkur. Gangi þér ofsalega vel að vinna úr öllu þínu og góðan bata <3
ReplyDeletekv. Sigrún Helgadóttir
Hugrekki og dugnaður hjá þér að segja frá, örugglega mikill léttir líka eða ég ímynda mér að það sé þannig þegar maður "skrifar þetta frá sér". Gangi þér sem allra best :)
ReplyDeleteÞú ert ekki tabú :)
ReplyDelete