Vinkona mín vildi endilega að ég prófaði mig áfram með að gera náttúrulega matarliti og auðvitað prófaði ég mig áfram :) Er minna mál að gera en ég bjóst við. Kannski ekki eins auðvelt og að opna matarlitstúpuna og hella nokkrum dropum í kremið og voila en það er eitthvað við það að gera eitthvað frá grunni sjálfur :) Ég er ekki búin að prófa allt sjálf en þetta er hrikalega sniðugt fyrir þá sem vilja prófa sjálfir heima og losna við E-efni. Flestir litirnir eiga ekki að skilja eftir neitt bragð ef þeir eru soðnir í vatni en berin/maukin gefa auðvitað gómsætt bragð. Gulrótasafinn gæti gefið smá sætleika.
Rauðrófusafi sem ég blandaði út í rjómaost. Myndin sýnir ekki alveg rétta lit en hann var fallega fölbleikur.
Hér koma því nokkrar hugmyndir að litum og hvað sé hægt að nota.
Bleikur/rauður - rauðrófur, jarðarber, hindber
Skerið rauðrófur í nokkrar sneiðar og setjið í pott með hálfum bolla af vatni. Látið hitna og takið rauðrófurnar úr þegar komin er góður litur á vatnið. Látið sjóða smá niður til að fá sem sterkasta lit.
Ef nota á hindber eða jarðarber eru þau maukuð og sett í sigti og sigtað frá fræin. Berin eru ekki í eins fljótandi formi og rauðrófu liturinn og er meira eins og purre.
Fjólublár - Rauðkál, bláber
Skerið rauðkálið í bita og setjið í pott. Látið vatn ná yfir rauðkálið og látið sjóða (frábært að nota vatnið þegar búið er til heimagert rauðkál) Látið vatnið sjóða aðeins niður.
Með bláberin er gert það sama og með hindberin og jarðarberin.
Blár - Rauðkál
Þetta er svooooo sniðugt! Notið 1 bolla af rauðkálsvatninu og blandið út í 1/2 tsk af matarsóda og hrærið. Liturinn fer frá því að vera fjólublár í því að vera blár. Bætið við matarsóda ef þið viljið fá ljósari lit.
Gulur - túmerik krydd, gulrótasafi, mangó
Mauka mangó í purre
Grænn - Spínat safi, spirulina duft
Spínat soðið með vatni og sem er svo látið sjóða niður.
Brúnn - kanill, lakkrísduft, kakóduft
Það er um að gera að prófa sig áfram og aldrei að vita hvert hugurinn fer. Þið trúið aldrei hvað mér datt í hug að gera eftir að hafa dundað mér við þetta. Ef heppnast vel set ég inn á morgun mynd ;)
No comments:
Post a Comment