Hæ ég heiti Hafdís og ég held víst úti bloggi, matarbloggi. Ég er alls ekki búin að gleyma því, ég lofa.
Ég hef bara ákveðið að leyfa mér að vera hrikalega löt að blogga ;)
Desember er yfirleitt mjög rólegur mánuður hjá mér.
Ég ákveð hvað skal gefa í gjafir áður en ég fer í búðir að kaupa þær og nota internetið til að finna það sem ég er að leyta að og finna besta verðið. Þá veit ég nákvæmlega hvert á að fara til að finna hverja gjöf. Annað er að ég kaupi yfirleitt allar gjafir í nóvember eða í byrjun desembers í allra síðasta lagi.
Svo fer ég núna helst bara í búðir á frídegi mínum á virkum dögum og þá helst fyrir hádegi svo ég sleppi við margmenni og stress.
Já svo veit ég að jólin koma hvort sem ég næ að þrífa ísskápinn eða gluggana að utan. Best þá bara að slökkva ljósin og kveikja á kertum ;)
En það er komin yfir mig smá bloggstuð loksins. Kannski því að ég horfði á son minn setja á sig svuntu í gær og flétta í gegnum bókina mína og baka síðan þessar flottu kókostoppa alveg sjálfur.
Ég veit líka að margir eru að bíða eftir nýjum uppskriftum svo hér kemur ein sem hefur ekki birst á blogginu áður.
Ég á þónokkrar uppskriftir af marsipani. Ég elska marsipan. Það er samt ekki langt síðan ég lærði að meta það. Besta kannski er líka hversu auðvelt er að útbúa það og hægt að útfæra á svo marga vegu.
Hér er ein sem er að sjálfsögðu sykurlaus en inniheldur ekki eggjahvítu eins og svo oft.
Marsipan
300g möndlumjöl
60g Sukrin Gold
1tsk sítrónusafi
1tsk möndludropar
80ml vatn
Ég kaupi möndlur án hýðis og hakka vel svo sjálf í matvinnsluvélinni þar til orðið að fínugerðu mjöli. Getur keypt tilbúið möndlumjöl, bara passa að það sé ekki hýði á þeim.
Setjið möndlumjölið í skál ásamt restinni af hráefnunum (nema vatn) og blandið vel saman í höndunum. Bætið við vatni, smá í einu og hnoðið vel saman þar til rétt áferð er komin.
(marsipanið helst vel saman)
Rúllip upp í marsipan lengju og geymið í kæli þar til þið notið það.
No comments:
Post a Comment