Wednesday, September 11, 2013

Jarðaberja chia ís

Eins og ég skrifaði um daginn, fall er fararheill og ég held mig við það. Þrátt fyrir að þjást og sofa illa vegna verkja þá varð ég heppinn í vikunni þar sem ég vann 50 þúsund kr gjafabréf í Smáralindina! Ég, sem aldrei vinn neitt! Fyrsta sem ég hugsaði var SKÓR! Vantar skó, en vantar þá kannski ekki, frekar langar í. Svo ég hugsaði aðeins meir og jú. Það eru að koma jól, og mig er búið að langa hrikalega mikið í George Jensen kertastjaka úr gulli til að nota sem aðventukrans og svo auðvitað er nýr jólaóri frá sama framleiðanda komin. Svo ég ætla fljótlega að gera mér leið í Smáralindina og kaupa mér þetta tvennt. Valkvíðinn heldur svo áfram með restina af gjafakortinu en ætli börnin fái ekki eitthvað dekur frá móður sinni.

Ég ákvað í fyrradag að opna like síðu á facebook vegna fyrirspurnar og ég er eiginlega bara orðlaus yfir viðtökunum! Yfir 1000 like og talan hækkar örlítið með hverjum degi. Það er virkilega gaman að sjá áhuga hjá fólki yfir því sem ég er að gera. Takk fyrir segi ég nú bara! 


En nóg um það. Jarðaberja chia ís var ég búin að nefna og veit að það er beðið eftir þessari uppskrift. Eftir að ég keypti chia fræin var ég ekki viss hvað ég ætti að nota þau í en svo eftir að hafa skoðað netið sá ég að möguleikarnir eru endalausir og að setja hann í ís í stað eggja er snilld! Veit að ísgerð getur verið erfið fyrir þá sem eru með eggjaofnæmi en hér er komin lausn. Og ekki nóg með það, þá gera chia fræin ísinn chruncy í áferð eins og það séu hnetur í honum og ekki finnst mér það verra.




Jarðaberja Chia ís

1 bolli jarðaber
350 ml rjómi
chia 3 msk
vatn 10 msk
sukrin melis 1/2 bolli




Chia fræin eru sett í vatn og látin liggja í ca 30 mín.
Chia fræin eru sett í skál og maukuð smá með töfrasprota.
Öllu hráefninu blandað saman og maukað þar til sættanleg áferð fyrir hvern og einn er komin.
Sett í frysti í nokkra klt. Gott að hræra í ísnum nokkrum sinnum.

Hægt er að borða ísinn strax eftir maukun og hafa sem búðing.

Að nota chia fræ í stað eggja

1 msk chia fræ + 60 ml vatn/mjólk og látið liggja í 5 mínútur = 1 EGG

12 comments:

  1. Takk fyrir að deila Hafdís, ekkert smá einfalt og girnilegt :) Myndir þú segja að þetta væri nóg fyrir 2? Þessi verður sko gerð um helgina :)

    ReplyDelete
  2. Þú ert snillingur :) hlakka til að prófa :)

    ReplyDelete
  3. Lýst vel á þetta, takk fyrir að deila! Ein spurning þó, helduru að það gæti gengið að nota mjólk í staðinn fyrir rjóma? Hef aldrei búið til ís svo allar upplýsingar eru vel þegnar :-)

    ReplyDelete
  4. Birna, þessi ís er alveg vel fyrir tvo, jafnvel fyrir fjóra ef hver fær sér 3 kúlur í skál :)
    Halla, varðandi mjólkina þá ætti það held ég alveg að virka. Ég prófaði að googla uppskriftir með chia og mjólk í ísnum og sá nokkrar. Það er samt spurning hvort þú setur aðeins minna af mjólkinni eða tsk meir af chia til að fá þykktina fína. Þú verður bara að prófa þig aðeins áfram :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Takk fyrir svarið Hafdís :) og til lukku með vinninginn ;)

      Delete
  5. Frábært, bestu þakkir fyrir svarið =)

    ReplyDelete
  6. Ofsalega góður ís :) Spurning hvort þetta verði ekki jólaísinn í ár ;)

    ReplyDelete
    Replies
    1. ætlaði að setja like á kommentið hjá þér en það er víst ekki hægt ;-)

      Delete
  7. Hvernig er það lágkolvetna-ís að nota chia sem eru 1/3 kolvetni í staðinn fyrir egg?

    ReplyDelete
  8. Chiafræ eru mikið notuð í lágkolvetna mataræði. 3 msk chiafræja eru ca 30g sem gera undir 3g af net kolvetnum (kolvetni sem eru talin þar sem trefjar eru dregin frá) sem er svo deilt á alla uppskriftina sem telst ekki mikið. Þannig ég skil ekki alveg afhverju þetta ætti ekki líka að teljast lágkolvetna þó vissulega væri hægt að minnka aðeins meira kolvetnin ef maður vill hafa egg í uppskriftinni.

    ReplyDelete